Sælusveitin (1996-2014)

Sælusveitin

Sælusveitin var pöbbadúett þeirra Hermanns Arasonar og Níelsar Ragnarssonar en þeir félagar störfuðu um árabil sunnan heiða og norðan, og skemmtu skemmtanaþyrstum ölstofugestum frá því um miðjan tíunda áratug síðustu aldar og fram á nýja öld. Hermann lék á gítar en Níels á hljómborðsskemmtara og sáu þeir báðir um sönginn.

Sælusveitin gerði líklega út frá Akureyri þrátt fyrir að spila mest framan af á höfuðborgarsvæðinu, þannig er dúettinn fyrst auglýstur sumarið 1996 á Kringlukránni þar sem þeir voru húshljómsveit þar og spiluðu allt upp í fjögur kvöld á viku en um haustið færðu þeir sig einnig yfir á Gullöldina sem varð þeirra aðal staður um hríð að minnsta kosti. Sælusveitin lék þó einnig víðar á höfuðborgarsvæðinu næstu árin s.s. á Rauða ljóninu, Catalínu í Kópavogi, Celtic Cross og Fógetanum. Frá og með 1998 virðast þeir einnig færa sig yfir á heimaslóðir norðanlands, spiluðu þá bæði á Akureyri og Dalvík og upp úr aldamótum voru þeir jafnvel meira þar en á höfuðborgarsvæðinu. Með tímanum (og e.t.v. alla tíð) fór Sælusveitin að leika á árshátíðum, þorrablótum og þess konar dansleikjum og voru t.d. einnig að leika í skíðaskálanum í Hveradölum á jólahlaðborðum, endurfundaböllum og dansleikjum eldri borgara svo annars konar dæmi séu tekin.

Sælusveitin starfaði ekki alveg samfleytt og stundum liðu vikur og jafnvel mánuðir á milli þess sem sveitin var auglýst, þá leysti Sævar Sverrisson Hermann af um tíma og verið getur að fleiri slíkir afleysingamenn hafi komið við sögu Sælusveitarinnar. Með tímanum sneru þeir sér í auknum mæli að árshátíðabransanum og þeirri deil og hurfu þá nánast af pöbbunum.

Sælusveitin starfaði til ársins 2014 að minnsta kosti.