Súrefni (1995-2001)

Súrefni 1996

Hljómsveitin Súrefni náði allnokkrum vinsældum rétt um síðustu aldamót og var þá fremst í flokki sveita sem framleiddu danstónlist en um það leyti var nokkur vakning hér á landi í þeirri tegund tónlistar. Sveitin byrjaði sem hljómsveit, þróaðist þaðan yfir í dúett sem vann mest með tölvur en varð síðar aftur að fullskipaðri hljómsveit með hefðbundna hljóðfæraskipan. Súrefni sendi frá sér tvær breiðskífur og eina fimm laga smáskífu.

Undir lok 20. aldarinnar var allmikil tónlistarvakning meðal unglinga í Hafnarfirði en um það leyti voru hafnfirskar hljómsveitir t.a.m. áberandi í Músíktilraunum Tónabæjar og reyndar víðar, hér má nefna sveitir eins og Botnleðju, Stolíu, Woofer, Bubbleflies og Stæner. Mitt í þessum suðupotti var Súrefni stofnuð snemma árs 1995 og var fyrst um sinn fjögurra manna hljómsveit með bassa, gítar, trommur og hljómborð en spilaði eins konar rokkaða danstónlist eða danstónlistarskotið rokk – og reyndar segir sagan að tónlist sveitarinnar hafi farið um víðan völl.

Skipan Súrefnis var eitthvað á reiki til að byrja með og fjöldi liðsmanna misjafn, og hana skipuðu allt upp í sex manns þegar mest var en þá hafði hún á að skipa söngkonunni Margréti Gauju Magnúsdóttur sem ung að árum hafði sungið um Sólarsömbu með föður sínum Magnúsi Kjartanssyni, aðrir meðlimir sveitarinnar voru Hermann Fannar Valgarðsson [hljómborðsleikari?], Ólafur Kolbeinn Guðmundsson [trommuleikari?], Jón Ingvi Reimarsson gítarleikari, Þröstur Elvar Óskarsson hljómborðsleikari og Páll Arnar Sveinbjörnsson bassaleikari.

Sveitin var því nokkuð fjölskipuð þegar hún hóf að koma fram vorið 1995, fyrst á heimaslóðum í Hafnarfirði á menningarhátíð unglinga í Vitanum og á tónlistarhátíðinni Kaktusi í Bæjarbíói en síðan fljótlega utan átthaganna. Þannig lék sveitin um sumarið m.a. á Rykkrokk-tónleikunum við Fellahelli, Óháðu listahátíðinni, hitaði upp fyrir sænsku sveitina Lucky people center og lék einnig á dansleikjum félagsmiðstöðva sem bendir til að sveitin hafi fljótlega haft nógu langt prógramm til að halda út heilum böllum – e.t.v. ásamt öðrum sveitum og væntanlega þá með frumsömdu efni í bland við cover.

Súrefni

Súrefni voru eitthvað fram eftir árinu 1996 þrír til fjórir talsins en svo kom að því að þeir urðu aðeins tveir eftir, þeir Þröstur Elvar og Páll Arnar og voru þá báðir vopnaðir tölvum og hljómborðum. Um það leyti voru þeir skilgreindir sem technosveit og dúettinn hafði þá markað sér nokkuð ákveðna stefnu.

Sveitin hafði strax á fyrsta ári sínu orðið töluvert áberandi í íslensku tónlistarflórunni enda var hún dugleg að koma fram, á nýju ári (1996) fór örlítið minna fyrir henni opinberlega en líklega var Súrefni mun duglegri að koma fram heldur en fjölmiðlarnir kváðu um því sveitin mun hafa leikið töluvert í félagsmiðstöðvum höfuðborgarsvæðisins og jafnvel víðar. Sveitin var svo ein af þeim sveitum sem hituðu upp fyrir Prodigy í Laugardalshöllinni en um svipað leyti komu tvö lög út með þeim félögum á safnplötunni Drepnir, sem hafði að geyma menntaskólatónlist.

Kiddi í Hljómalind (Kristinn Sæmundsson) tók Súrefni svolítið upp á sína arma og snemma árs 1997 mun Súrefni að undirlagi hans, ásamt Botnleðju og Quarashi hafa farið í stutta tónleikaferð um landsbyggðina, tengt því fæddist samstarf sveitarinnar við Botnleðju undir nafninu Hankar og skilgreindi hópurinn sig sem tecnhopönksveit og hljóðritaði eitthvað efni undir því nafni.

Í apríl 1997 kom svo að því að Súrefni sendi frá sér sína fyrstu afurð, fimm laga skífuna Geimjazz sem hljóðrituð hafði verið í mars og var einkum ætluð til kynningar á sveitinni, en skífa þessi kom út í takmörkuðu upplagi. Í kjölfar útgáfunnar lék dúóið á stöðum eins og Rósenberg, 22, Tunglinu og Gauknum en á tónleikum á síðast talda staðnum voru fleiri sveitir og var sá konsert sendur út á netinu á þessum „árdögum“ Internetsins í því skyni að koma tónlistinni á framfæri erlendis. Þá lék Súrefni í nokkur skipti á Akureyri en platan seldist sérlega vel fyrir norðan og reyndar hlutfallslega miklu meira en á höfuðborgarsvæðinu. Geimjazz hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Um það leyti sendi Súrefni frá sér nýtt lag sem ekki var á skífunni, það var lagið Disco og naut það töluverðra vinsælda um sumarið, þá unnu þeir félagar lag með Tvíhöfða sem þá voru með vinsælan útvarpsþátt á X-inu en lagið hét Franskur koss / French kiss og naut hylli á stöðinni en það kom svo út á plötu Tvíhöfða – Til hamingju, sem kom út ári síðar.

Haustið gekk í garð og Súrefni var áfram í tónleikagírnum, spilaði m.a. á nokkrum stöðum ásamt Bretunum í Wise guys og hitaði upp fyrir fleiri erlendar danssveitir sem hingað komu, einnig var Gus Gus að vinna með endurhljóðblandanir á Súrefnis-lögum þannig að sveitin var orðin æði þekkt um það leyti. Þá kom að því að breiðskífa kom út með Súrefni fyrir jólin 1997 á vegum Dennis records (undirmerki Skífunnar) og var einhver Gus Gus remixanna að finna á þeirri plötu en hún bar nafn sveitarinnar og hafði að geyma ellefu lög, þar á meðal Disco sem hafði notið vinsælda um sumarið. Á breiðskífunni var einnig að finna lagið You are moving too fast sem varð nokkuð vinsælt fyrir jólin og kom einnig út á safnplötunni Pottþétt 10.

Á nýju ári (1998) hélt Súrefni sínu skriði, var fremst meðal sveita á sínu reki og spilaði nokkuð á tónleikum. Þá vann sveitin endurhljóðblöndun af lagi Sóldaggar – Breyti‘ um lit og sveitirnar tvær áttu eftir að vinna töluvert saman, þannig lék Súrefni á nokkrum sveitaböllum um sumarið ásamt Sóldögg (og reyndar einnig Skítamóral) og komst þannig í kynni við Miðgarð í Skagafirði og e.t.v. fleiri samkomuhús á landsbyggðinni.

Súrefni

En Súrefni var einnig með í kvikmyndinni Popp í Reykjavík (e. Ágúst Jakobsson) sem tekin var um sumarið og á tónleikum tengt því hafði sveitin trommuleikara með sér, það átti eftir að marka breytingar á sveitinni því að um það leyti voru þeir félagar farnir að vinna að nýrri breiðskífu og þar komu fjölmargir gestir við sögu þannig þær áherslubreytingar urðu að í kjölfarið bætti sveitin við sig mannskap og kom fram sem fullskipuð hljómsveit á nýjan leik eftir um tveggja ára hlé. Þeir Franz Gunnarsson úr Ensímum og Höskuldur Ólafsson úr Quarashi léðu raddir sínar í söng og rappi á plötunni en einnig léku meðal annarra þeir Tómas Tómasson gítarleikari og Arnar Þór Gíslason trommuleikari í upptökunum og þeir tveir áttu síðan eftir að skipa sveitina með þeim Þresti Elvari og Páli Arnar, Þröstur Elvar varð tölvumaður sveitarinnar en Páll Arnar færði sig yfir á bassann sem hann hafði upphaflega verið á.

Platan, Wide noise kom út í nóvember og var eðlilega nokkuð öðruvísi en fyrri útgáfur Súrefnis enda mun meira um „lifandi“ hljóðfæraleik en á fyrri plötum. Lagið Skyzo sem Höskuldur rappaði með þeim naut nokkurra vinsælda en einnig Slide off þar sem Tómas lék á slide-gítar. Wide noise hlaut ágæta dóma gagnrýnenda Morgunblaðsins, DV og Dags. Lög af plötunni rötuðu inn á safnplötur eins og Pottþétt 13, Tal-frelsi og The World of Icelandair.

Tónlist Súrefnis varð við þetta harðari á nýjan leik, með kraftmikinn hljóm sem hljómsveit og í raun gjörbreytt. Þeir félagar fóru mikinn í kjölfar útgáfu plötunnar til að kynna hana en eftir áramótin 1998-99 hægðist nokkuð á henni í bili enda höfðu tvímenningarnir Þröstur Elvar og Páll Arnar verið á fullu í raun síðan sveitin tók til starfa, og einnig búnir að vinna þrjár plötur (tvær breiðskífur og eina smáskífu) á um einu og hálfu ári. Það leið þó ekki á löngu þar til hljómsveitin var komin á fullt skrið aftur og tók til við að leika á skólaböllum og félagsmiðstöðvum en einnig m.a. á Stefnumótakvöldum á Gauknum, þá fór sveitin einnig utan til Danmerkur um vorið og lék þar fyrir Íslendinga ásamt Maus en Súrefni var þá sem fyrr segir orðin fjögurra manna hljómsveit.

Samstarf Súrefnis við Sóldögg hélt sömuleiðis áfram og sveitirnar spiluðu saman á dansleik um hvítasunnuhelgina á Logalandi í Borgarfirði en að öðru leyti var spilamennskan nokkuð hefðbundin, sveitin lék t.a.m. á vikulegum Tal-tónleikum sem haldnir um sumarið í samstarfi við Rás 2 en Súrefni deildi þar sviði með Sigur rós, sveitin lék einnig á tónleikum í Skautahöllinni ásamt Landi og sonum, á Gauki á Stöng og víðar. Eftir því sem leið á færðist svo spilamennskan aftur yfir á skólahópana.

Aldamótin gengu í garð og á nýrri öld voru hlutirnir í nokkuð föstum skorðum áfram. Súrefni sendi ekki frá neitt nýtt efni á þessum tíma en lék þó eitthvað af slíku á tónleikum, og þegar nær dró vori lék sveitin á Stefnumótakvöldum, Sítrónu-tónleikaröðinni og svo eins og flestar hljómsveitir sem eitthvað kvað að – á tónlistarhátíðinni Reykjavík Music Festival í byrjun sumars. Samstarfið við Sóldögg hélt þá einnig áfram um sumarið og haustið 2000 var komið að því að leika á Iceland Airwaves en þeirri hátíð hafði verið hleypt af stokkunum fyrst árið á undan. Í tengslum við þá hátíð kom út safnplata þar sem Súrefni kom við sögu, Iceland Airwaves: 19. – 22. October Reykjavik Iceland.

Súrefni árið 2000

Eftir Airwaves hátíðina haustið 2000 hvarf Súrefni af sjónarsviðinu og lagðist í híði, og þar með mætti í raun segja að komið hafi verið að endalokum sveitarinnar. Vorið 2001 var gerð tilraun til að blása lífi í sveitina og hún átti lag, Loaded gun á sumarsafnplötunni Svona er sumarið 2001 þar sem Bergsveinn Arilíusson, Birgitta Haukdal og Pétur Örn Guðmundsson sungu með sveitinni sem gestir. Þar var hún enn skipuð fjórmenningunum Þresti Elvari, Páli Arnari, Tómasi og Arnari en aukreitis hafði bæst í sveitina söngvarinn Guðfinnur Karlsson (Finni) sem oft er kenndur við Dr. Spock og Quicksand Jesus, hann söng svo með þeim félögum í nokkur skipti þar sem safnplötulaginu var fylgt eftir en við svo búið hvarf Súrefni aftur af sjónarsviðinu.

Þar með má segja að sögu Súrefnis ljúki þó svo að sveitin hafi komið fram í fáein skipti síðan, fyrst árið 2011 þegar sveitin kom fram á X-mas tónleikum útvarpsstöðvarinnar X-sins sem þá voru haldnir í minningu Hermanns Fannars Valgeirssonar fyrrum félaga þeirra en hann lést þá um haustið, árið 2020 kom sveitin aftur saman á minningartónleikum um Hermann Fannar og í millitíðinni hafði sveitin endurnýjað kynni sín við danstónlistarunnendur á tónlistarhátíðinni Sónar árið 2015.

Efni á plötum