Afmælisbörn 15. apríl 2024

Hallur Þorleifsson

Í dag eru tveir tónlistarmenn á afmælislista Glatkistunnar:

Björgvin Þ. Valdimarsson kórstjóri og tónskáld er sextíu og átta ára gamall í dag. Björgvin var um tvítugt farinn að stjórna kórsöng en hann hefur stjórnað kórum eins og Samkór Selfoss, Karlakór Selfoss, Söngfélaginu Drangey og Skagfirsku söngsveitinni, kórar hans hafa m.a. flutt lög eftir hann og er þekktast þeirra vafalaust Undir dalanna sól. Tvær plötur hafa verið gefnar út með lögum eftir Björgvin en fjölmörg önnur lög hans hafa komið jafnframt út á öðrum plötum. Björgvin hefur starfað við tónlistarkennslu um árabil og eftir hann liggur heilmikið kennsluefni í tónlist.

Hallur Þorleifsson söngvari og kórstjórnandi átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést 1974 rúmlega áttræður að aldri. Hallur (fæddur 1893) stjórnaði ýmsum kórum og sönghópum s.s. Áttmenningunum, Söngkór tannlækna og Kátum piltum og söng sjálfur með Karlakór KFUM, Fóstbræðrum, Söngfélaginu 17. júní, Litla kvartettnum og Dómkirkjukórnum, auk þess að gegna ýmsum trúnaðar- og félagsstörfum innan kórasamfélagsins.

Vissir þú að rithöfundurinn Hermann Stefánsson hefur gefið út tónlist í eigin nafni og starfað með nokkrum hljómsveitum?