Björgvin Þ. Valdimarsson (1956-)

Björgvin Þ. Valdimarsson

Björgvin Þ. Valdimarsson er fjölhæfur í list sinni en hann má flokka sem tónskáld, kórstjórnanda og höfund kennsluefnis í tónlist. Þekktastur er hann líklega fyrir lagið Undir dalanna sól.

Björgvin (Þór) Valdimarsson er fæddur á Selfossi 1956 og þar bjó hann fyrstu áratugi ævi sinnar. Hann fékk snemma áhuga á tónlist og þegar hann var fimmtán ára keypti hann sitt eigið píanó en ekkert hljóðfæri hafði verið til á æskuheimili hans. Björgvin lærði sem barn á trompet og píanó, hann lauk síðar tónmenntakennaraprófi og hóf að kenna tónlist, fyrst á Selfossi við Tónlistarskóla Árnesinga. Löngu síðar nam han einnig gítarleik.

Björgvin var orðinn undirleikari Karlakórs Selfoss og stjórnandi Samkórs Selfoss árið 1976 en hann var þá einungis tvítugur að aldri. Samkór Selfoss stýrði hann allt til ársins 1983, á þeim árum var hann farinn að semja sönglög, og sum hver þeirra flutti kórinn opinberlega. Það var svo á plötu Samkórs Selfoss, Þú bærinn minn, sem fyrsta lag hans kom út sungið af kórnum.

Árið 1983 söðlaði Björgvin um og fluttist til Reykjavíkur og þá um haustið tók hann við stjórn Skagfirsku söngsveitarinnar í Reykjavík en þeim kór stjórnaði hann í liðlega tuttugu og fimm ár eða allt til ársins 2008, samhliða því stjórnaði hann um tíma einnig Söngfélaginu Drangey. Skagfirska söngsveitin hefur flutt fjölda laga eftir Björgvin og til dæmis voru fimm laga plötunnar Ljómar heimur eftir hann en sú plata kom út 1990.

Björgvin kenndi jafnframt við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar en síðar einnig við Tónmenntaskóla Reykjavíkur, þá stofnaði hann eigin tónlistarskóla, Tónskóla Björgvins Þ. Valdimarssonar sem um tíma var starfræktur við Hamraskóla en hann stjórnaði þá Barnakór Hamraskóla.

Björgvin Þ. Valdimarsson

Björgvin hefur gefið út fjöldann allan af kennslubókum í tónlist sem notið hafa vinsælda og eru víða notaðar sem kennsluefni við tónlistarskóla hérlendis en einnig í Færeyjum. Hann hefur verið duglegur að endurútgefa kennsluefnið og uppfæra það eftir megni og á síðustu árum hefur hann starfrækt vefsíðuna www.pianonam.is sem er kennsluvefur tengdur bókum hans.

En Björgvin er kannski fyrst og fremst tónskáld og mörg sönglaga hans hafa verið flutt á opinberum vettvangi og á útgefnum plötum í gegnum tíðina. Lang þekktast laga hans er án nokkurs vafa Undir dalanna sól sem fjölmargir kórar hafa flutt í gegnum tíðina en meðal annarra laga Björgvins má nefna lögin Vorsól, Maríubæn, Sýnin, Sumarmál, Mamma og Allt sem ég er. Ljóðin við lög hans hafa komið úr ýmsum áttum.  Árnesingakórinn, Karlakórinn Heimir, Karlakór Keflavíkur, Hreimur og Álftagerðisbræður eru aðeins nokkur dæmi um tónlistarfólk sem flutt hafa lög Björgvins á plötum en útgefin verk hans skipta tugum.

Tvívegis hafa komið út plötur sem eingöngu hafa að geyma lög Björgvins Þ. Valdimarssonar, árið 2005 kom út plata sem bar titilinn Undir dalanna sól: Tónlist eftir Björgvin Þ. Valdimarsson en á þeirri plötu sungu Álftagerðisbræður, Óskar Pétursson, Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú), Bergþór Pálsson og fleiri fjórtán laga hans. Fjórum árum síðar (2009) kom út önnur plata, Allt sem ég er: Tónlist eftir Björgvin Þ. Valdimarsson, á þeirri plötu flutti Óskar Pétursson þrettán lög Björgvins ásamt nokkrum gestum. Báðar plöturnar voru gefnar út af Björgvini sjálfum.

Þess má að lokum geta að lagið Undir dalanna sól hefur verið gefið út á færeysku og sænsku.

Efni á plötum