Björgvin Tómasson [annað] (1956-)

Björgvin Tómasson orgelsmiður

Björgvin Tómasson orgelsmiður er eini sinnar tegundar í faginu hérlendis og hefur hann smíðað nokkra tugi kirkjuorgela frá grunni.

Björgvin er fæddur 1956 í Reykjavík en ólst upp í Mosfellssveitinni. Hann lærði á píanó á unglingsárum, lauk tónmenntakennaranámi og hafði starfað sem slíkur um skamma hríð þegar hann ákvað að fara til Þýskalands og nema þar orgelsmíði seint á áttunda áratug síðustu aldar. Að því námi loknu starfaði hann í nokkur ár í Þýskalandi en kom heim til Íslands 1986 og hefur starfað við fag sitt hér heima síðan, sem eini fagmenntaði orgelsmiður landsins.

Fyrsta orgelið sem Björgvin smíðaði hér heim var lítið pípuorgel í Akureyrarkirkju en síðan þá á hann að baki fleiri tugi orgela sem hann hefur smíðað ýmist einn eða með aðstoðarmönnum sínum, hið stærsta má sjá í Laugarneskirkju en meðal annarra má nefna orgel í Digraneskirkju, Lágafellskirkju, Fáskrúðsfjarðarkirkju og Oddakirkju svo einungis fáein séu nefnd. Björgvin hefur ennfremur starfað við stillingar, viðgerðir og endurbætur á orgelum um land allt.

Fyrst um sinn starfaði Björgvin í heimabyggð sinni í Mosfellsbæ, m.a. um árabil á Blikastöðum í Mosfellsdal en það var svo árið 2005 sem hann flutti starfsemi sína austur á Stokkseyri þar sem hann hefur aðstöðu í gömlu frystihúsi og hefur þar einnig opnað Orgelsmiðju Björgvins Tómassonar sem er eins konar fræðslusetur fyrir ferðamenn, þar er einnig tónleikaaðstaða.