
Helgi Svavar Helgason
Fjórir tónlistarmenn eru á afmælislista Glatkistunnar í dag:
Söngvarinn og hljómborðsleikarinn Grétar (Þorgeir) Örvarsson er fimmtíu og sex ára. Grétar sló í gegn með hljómsveit sinni Stjórninni þegar hann og Sigga Beinteins sungu framlag Íslands í Eurovision keppninni 1990. Í kjölfarið gaf Stjórnin út nokkrar plötur sem allar nutu vinsælda en einnig hefur Grétar starfað með og starfrækt hljómsveitir eins og BSG, Hljómsveit Grétars Örvarssonar, Morse, Alvöruna og Dans á rósum.
Julian (Michael) Hewlett tónskáld, kórstjórnandi og píanóleikari er fjörutíu og átta ára. Hann hefur starfað á Íslandi sem tónlistarkennari og stjórnandi kóra síðan seint á níunda áratug liðinnar aldar, fyrst á Skagaströnd og Egilsstöðum áður en hann fluttist á höfuðborgarsvæðið. Meðal kóra sem hann hefur stjórnað eru Samkór Kópavogs, Kvennakór Kópavogs, Boudoir, Kór Kópavogskirkju og Englakórinn.
Tónlistarmaðurinn Hrafn Thoroddsen er fjörutíu og tveggja ára í dag. Hann hefur sungið og leikið á hljómborð, orgel gítar og önnur hljóðfæri í ýmsum þekktum hljómsveitum og má þar nefna sveitir eins og Ensími, Jet Black Joe, Dr. Spock, Egó og SSSól.
Siglfirðingurinn Helgi Svavar Helgason trommuleikari er þrjátíu og sjö ára. Helgi hefur komið víða við á sínum ferli og leikið með hljómsveitum af ýmsum stærðum og gerðum, þekktastar þeirra eru án efa Senuþjófarnir, Memfismafían og Flís en einnig má nefna Rodent, Funkmaster 2000, Grams, Stórsveit Samúels J. Samúelssonar, Klezmersveitina Schpilkas, Endurskoðendurna og Benni Hemm Hemm.