Vestanáttin – Vestanáttin
Gustuk GCD 004, 2015
Hljómsveitin Vestanáttin sendi nú í sumar frá sér plötu samnefnda sveitinni en hún er það fyrsta sem heyrist frá þessu ársgamla bandi.
Það er kannski rétt að byrja á að taka fram að þrátt fyrir að fyrirfram væri ljóst að sveitin léki sveitatónlist tengdi ég tvírætt nafn hennar fremur við veðurfarslegar aðstæður en upprunaland tónlistarstefnunnar, en það mætti auðvitað færa þau veðurfræðilegu rök fyrir að stefnan hafi borist hingað til lands frá Bandaríkjunum með vestanáttinni.
En Vestanáttin er sveit sem skipuð er einvala liði á ýmsum aldri og víðs vegar úr tónlistarbransanum. Þar er fremstur í flokki lagahöfundurinn Guðmundur Jónsson gítarleikari, jafnan kenndur við Sálina hans Jóns míns en hefur svosem komið mjög víða við í sinni sköpun. Hinn gítarleikari sveitarinnar, Sigurgeir Sigmundsson hefur jafnvel enn meiri reynslu úr bransanum en hér eru nefndar Start, Gildran og Drýsill sem viðkomustaðir hans. Eystein Eysteinsson trymbil þekkja margir úr Pöpunum, Pétur Kolbeinsson bassaleikari lék með Bermuda fyrir ekki svo löngu og að síðustu er hér nefnd söngkona Vestanáttarinnar, Alma Rut Kristjánsdóttir, sem söng með hljómsveitinni Heitum lummum fyrir áratug eða svo, auk þess að vera ein Ásynja sem sungið hafa víða við ágætan orðstír.
Guðmundur er skrifaður fyrir öllu efni á plötunni, bæði lögum og textum og má segja að hann beri því að nokkru leyti uppi plötuna án þess þó að þetta teljist vera sólóverkefni hans. Í fyrstu reyndi ég að horfa framhjá þætti hans og tókst það þokkalega í byrjun en smám saman varð ekki hjá því komist að tengja hann sérstaklega við tónlistina, svo sterk eru höfundareinkennin á köflum. Það voru þó ekki lög Sálarinnar sem komu í hugann heldur miklu fremur sólóferill Guðmundar – því verður víst ekki neitað að hann er tónlistarlegt kamelljón.
Sem fyrr segir gefur Vestanáttin sig út fyrir að vera kántrísveit, að minnsta kosti á þessari plötu. Fjölbreytileiki og flokkun innan sveitatónlistarinnar eru mikil og þó undirritaður sé langt frá því að vera sérfróður um hana get ég þó nefnt að kántrítengingin er fremur við tónlistarmenn á borð við Shaniu Twain heldur en Gram Parsons eða Willie Nelson – svo lesendur hafi einhverja hugmynd um hvernig platan hljómar.
Alma Rut er hin ágætasta söngkona og rödd hennar smellpassar við tónlistina, hinir skila sínu og vel það, fjölhæfni Guðmundar sem hljómborðs- og jafnvel banjóleikari kemur á óvart og sérstaklega kemur gamla brýnið Sigurgeir sterkur inn með smekklegan stálgítar þar sem það á við. Banjóið og fiðla gefur tónlistinni einnig aukið vægi á köflum en Matthías Stefánsson fiðluleikari er gestur á plötunni.
Besta lag plötunnar að mati undirritaðs er Sjá handan að en það hefur fengið töluverða útvarpsspilun undanfarið reyndar eins og Í alla nótt og Þar sem ástin í hjörtum býr, sem eru líka ágæt en þó síðri. Tvær systur er einnig lag sem situr eftir en þar sýnir gestasöngvarinn Guðrún Árný á sér sparihliðina. Annars má heilt yfir segja að lögin séu nokkuð jöfn að gæðum, að minnsta kosti er ekkert lag sem sker sig úr að neinu marki á hvorn endann sem litið er.
Ef hægt að er að greina einhvern rauðan þráð í textasmíðum Guðmundar er það helst tregi, jafnvel nostalgískur tregi sem kemur einna skýrast fram í laginu Heimleið og ekki síður í óðnum til æskustöðvanna, Skagaströnd og ég. Það minnir mann líka á að margir rekja uppruna íslenska kántrísins einmitt til Skagastrandar. Annars eru hugðarefnin af ýmsu tagi og einlægnin jafnvel meiri en maður hefur séð hingað til í textum hans.
Vestanáttin fær stóran plús fyrir textabæklinginn sem fylgir plötunni og er vel að slíkt tíðkist ennþá, ómengað af flúri og skrautletri sem varla verður lesið. Hins vegar finnst mér svarthvít og dimm ljósmyndin framan á umslaginu tóna illa við brúntóna bæklinginn og kjölinn. En það er auðvitað bara minn smekkur.
Sé efni þessarar umfjöllunar dregið saman í stuttu máli má segja að útgáfa plötunnar valdi engum tónlistarlegum straumhvörfum í íslensku tónlistarlífi en margt áheyrilegt er á henni engu að síður, fínasta vandað íslenskt kántrípopp sem á fullkomlega rétt á sér.