Rokkkeyrsluveisla frá A til Ö

Dimma – Vélráð 
GB records GB008 (2014)

4 stjörnur

Dimma - Vélráð

Dimma – Vélráð

Ferli hljómsveitarinnar Dimmu má algjörlega skipta í tvennt, það má jafnvel ganga svo langt að tala um tvær hljómsveitir. Fyrir og eftir hlé. Sveitin kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir um tíu árum sem leifar af hljómsveitinni Stripshow sem hafði vakið athygli utan landsteinanna, þá gaf hún út tvær dökkleitar breiðskífur sungnar á ensku og dró sig síðan í hlé þar til fyrir um þremur árum er hún birtist aftur með nokkuð breytta liðsskipan og söng á íslensku. Nýir meðlimir, Birgir Jónsson trommuleikari (sem reyndar hafði eitthvað verið viðloðandi bandið áður) og Stefán Jakobsson söngvari og Mývetningur hresstu heldur betur upp á Dimmu, ásamt bræðrunum Ingó og Silla Geirdal en sveitin hafði verið hugarfóstur þeirra frá upphafi. Þannig skipuð gaf sveitin út Myrkraverk fyrir tveimur árum, í kjölfarið kom tónleikaplatan Myrkraverk í Hörpu og nú platan Vélráð, og Dimma var allt í einu orðin með vinsælli sveitum landsins, og frábær tónleikasveit þar sem showið hefur ekki minna vægi en tónlistin. Og það ekki að ástæðulausu, því Vélráð er nánast ein allsherjar rokkkeyrsluveisla frá upphafi til enda með viðeigandi gítarriffum og hetjusólóum, frábærum gargandi rokksöngvara sem virðist hafa fæðst tilbúinn í hlutverk sitt ásamt hrynpari sem varla verður þéttara. Sterkar melódíur vega á móti þungum undirtóninum í textunum og því verða lögin ekki það svartnætti sem þau hefðu getað orðið.

Bestu lög plötunnar að mínu mati eru Ég brenn, Illur arfur (þegar það loksins byrjar, og þá heyrir maður einn svakalegasta trommuleik sem heyrst hefur á íslenskri plötu), Andsetinn, sem þó er hljómar pínulítið skrýtið, hvort sem það söngurinn eða eitthvað annað, og svo Lokaorð sem er allt að því söngleikjalegt í uppbyggingu, það er lag sem stækkar og stækkar og springur út sem risastórt lag í lokin. Tvö róleg lög eru á Vélráðum, Djúpið og ofurballaðan Ljósbrá sem fékk nokkra útvarpsspilun í sumar og er eiginlega sísta lag plötunnar fyrir það hversu Scorpions-legt það er. Það verður ekki almennilega að lagi fyrr en í millikaflanum.

Nokkrir gestir koma við sögu sem smella eins og flís við rass í tónlistarlegum skilningi, hvort sem það eru strengir, orgel, píanó eða kórsöngur, og það á sérstaklega við í Lokaorðum – svo aftur sé minnst á söngleikjauppbyggingu þess lags, og það er algjörlega í jákvæðum skilningi.

Það væri ósanngjarnt að nefna einhvern umfram aðra í spilamennskunni á Vélráðum en það væri líka ósanngjarnt að nefna ekki sérstaklega þátt bræðranna Ingós og Silla sem þrátt fyrir allt eru heilinn í bandinu. Og niðurstaðan er frábær plata sem þeim öllum er til sóma. Umslagið er flott og undirstrikar flotta plötu.