Afmælisbörn 10. júlí 2015

Helgi Björnsson

Helgi Björnsson

Tvö afmælisbörn í þekktari kantinum kom við sögu Glatkistunnar á þessum degi:

Helgi Björnsson söngvari og leikari er fimmtíu og sjö ára í dag. Nafn hans varð fyrst þekkt þegar hann gekk til liðs við ísfirsku hljómsveitina Grafík en áður hafði hann verið í hljómsveitinni Berb. Í kjölfarið hófst farsæll söngferill Helga og eftir að hafa verið í Næturgölunum frá Venus, stofnaði hann ásamt öðrum Síðan skein sól, sem síðar varð SSSól. Helgi hefur leikið á sviði og í kvikmyndum og sungið á plötum tengt því en einnig hefur hann gefið út sólóefni, gefið út dúettaplötu með Bergþóri Pálssyni, plötur með Reiðmönnum vindanna og sungið með Astral sextett, svo fátt eitt sé nefnt.

Stefán Karl Stefánsson leikari er fertugur á þessum degi. Þrátt fyrir að vera fyrst og fremst leikari er söng hans einnig að finna á nokkrum plötum, einkum tengdum Latabæ en eins og margir vita hefur hann gegnt lykilhlutverki í þeim bæ. Hann hefur sungið sem gestur á nokkrum plötum, á plötum sem geyma tónlist úr leikritum og kvikmyndum en gaf einnig út grínplötuna Í túrrett og moll árið 2009.