Salómon Heiðar (1889-1957)

salomon-heidar1

Salómon Heiðar

Salómon Heiðar (Runólfsson) var einn af máttarstólpum íslenska karlakórasamfélagsins og átti þátt í að stofna til og móta kórsöng hérlendis.

Salómon Heiðar fæddist í Hvítársíðu í Borgarfirðinum 1889 en fluttist til Hafnarfjarðar á unglingsaldri. Hann hlaut ekki eiginlegt tónlistarnám en lærði að leika á orgel af föður sínum sem hafði verið organisti í Borgarfirðinum og síðar einnig í Hafnarfirði. Salómon Heiðar tók reyndar við starfi hans við Garðakirkju á Álftanesi.

Salómon Heiðar lærði við Flensborgarskóla í Hafnarfirði og starfaði síðan við verslunarstörf í bænum. Hann var einn af stofnendum karlakórsins Þrasta í Hafnarfirði og söng bassarödd með kórnum og varð jafnframt fyrsti formaður Þrasta.

Þegar Salómoni Heiðari bauðst starf við verslun Ellingsen í Reykjavík fluttist hann til höfuðborgarinnar og bjó þar síðan. Þar gekk hann til liðs við Karlakór Reykjavíkur þar sem hann söng um árabil og var um tíma einnig formaður kórsins. Í Reykjavík gerðist hann aukinheldur organisti og kórstjóri Aðventista en hann hafði gegnt því starfi hjá Aðventistakirkjunni í Hafnarfirði líka.

Salómon Heiðar sinnti ennfremur öðrum félagsstörfum innan karlakórasamfélagsins, hann var formaður Sambands íslenskra karlakóra um tveggja ára skeið og var ritstjóri söngmálablaðsins Heimis einnig.

Hann var tónskáld og eftir hann liggja kóra-, einsöngs- og sálmalög en hluti þeirra var gefin út í þrjátíu laga söngvasafni með harmóníum eða píanónótum. Nokkur laganna höfðu ennfremur að geyma ljóð eftir Salómon Heiðar sjálfan.

Platan Salómon Heiðar: Tónheimar var gefin út af Fermata útgáfunni í minningu hans árið 2005 en hann lést 1957. Á þeirri plötu var að finna tuttugu og átta lög eftir tónskáldið, flutt af Kór Aðventkirkjunnar, Karlakór Reykjavíkur, Garðari Thór Cortes og Nönnu Maríu Cortes.

Efni á plötum