Salsa Picante (1995)

salsa-picante1

Salsa Picante

Salsasveitin Salsa Picante starfaði árið 1995 og vakti nokkra athygli enda fyrsta sveit sinnar tegundar hérlendis.

Sveitin kom fram fullmótuð í febrúar 1995 og gæti því hafa verið stofnuð fyrir áramótin 1994-95, meðlimir hennar voru þá Jón Björgvinsson slagverksleikari og Sigurður Perez Jónsson saxófónleikari sem komu úr Milljónamæringunum, og Sigurður Flosason saxófónleikari, Agnar Már Magnússon píanóleikari, Þórður Högnason bassaleikari og Berglind Björk Jónasdóttir söngkona. Eyþór Gunnarsson kom eitthvað fram með sveitinni og spilaði þá á slagverkshljóðfæri. Þannig var Salsa Picante skipuð fyrst um sinn en um vorið urðu þær mannabreytingar í sveitinni að Richard Korn hafði tekið við bassanum af Þórði og Margrét Eir Hjartardóttir tekið við söngnum af Berglindi Björku.

Um sumarið kom lag út með Salsa Picante á safnplötunni Heyrðu 7 og naut það nokkurra vinsælda en sveitin var þá nokkuð dugleg að koma fram á skemmtistöðum borgarinnar með sitt sérstaka prógram. Hún starfaði þó einungis út sumarið og hætti að því loknu.