Salka (1996-98)

salka1

Salka

Hljómsveitin Salka (stundum einnig nefnd Zalka) starfaði í um tvö ár og herjaði á sveitaböllin um land allt.

Meðlimir Sölku voru trommuleikarinn Ólafur Hólm, Þór Breiðfjörð söngvari, Tómas Tómasson gítarleikari, Björgvin Bjarnason gítarleikari og Georg Bjarnason bassaleikari en sveitin var stofnuð vorið 1996.

Salka sendi fljótlega frá sér lag í útvarpsspilun og hafði uppi plön um plötuútgáfu, sú plata var þó aldrei unnin og sveitin sendi ekki frá sér meira efni.

Einhverjar mannabreytingar urðu í Sölku meðan hún starfaði, fyrst hætti Þór söngvari en hann fór veturinn 1996-97 til Bretlands til að nema þar söng, við söngvarahlutverkinu tók Pétur Örn Guðmundsson en þeir Þór höfðu báðir sungið í söngleiknum Súperstar sem þá hafði nýlega verið settur á svið í Borgarleikhúsinu.

Vorið 1997 hættu þeir Ólafur trymbill og Georg bassaleikari og við hlutverkum þeirra tóku Hafþór Guðmundsson trommuleikari og Jakob Smári Magnússon bassaleikari, þeir komu báðir úr SSSól. Þannig skipuð starfaði Salka uns hún hætti störfum um sumarið 1998.