Spuni BB (1995-98)

Hljómsveitin Spuni BB var eitt af afsprengjum eða útibúum Sniglabandsins þó svo að sveitin væri ekki nema að hluta til úr þeim ranni, sveitin starfaði líklega á árunum 1995 til 98 með hléum og kom fram í nokkur skipti. Nafn sveitarinnar á sér augljósa skírskotun til gjörninasveitarinnar Bruna BB.

Fyrstu fregnir af Spuna BB er að finna frá vorinu 1995 og um haustið voru meðlimir sveitarinnar þau Björgvin Ploder trommuleikari, Pálmi J. Sigurhjartarson hljómborðsleikari, Þórður Högnason bassaleikari og Berglind Björk Jónasdóttir söngkona, svo virðist sem ekki hafi verið gítarleikari í sveitinni þá en ekki liggja fyrir upplýsingar um liðs- og hljóðfæraskipan Spuna BB eftir þetta en hún starfaði til ársins 1998 að minnsta kosti.