SS [útgáfufyrirtæki] (2001-11)

Plötusafnarinn Sigurjón Samúelsson frá Hrafnabjörgum í Ísafjarðardjúpi stóð fyrir endurútgáfu á efni sem komið hafði út á 78 snúninga plötum fram yfir miðja sjötta áratug síðustu aldar, en hann safnaði þessu efni á eins konar safnplötur á geisladiskaformi og seldi undir útgáfumerkinu SS (S.S.) – þessar plötur voru ýmist helgaðar einstaklingum eða blandaðar flytjendum. Efni þetta átti það sameiginlegt að hafa aldrei komið út á öðru formi en 78 snúninga plötum og því var það býsna eftirsótt þeim sem áhuga höfðu á. Hins vegar má deila um lögmæti útgáfunnar enda átti Sigurjón ekki útgáfurétt á tónlistinni.

Á árunum 2001 til 2011 komu út alls tuttugu og sjö titlar undir merkjum Sigurjóns í afar takmörkuðu upplagi enda lét hann einungis framleiða rétt rúmlega upp í eftirspurnina. Þegar hann lést árið 2017 færðu synir hans Landsbókasafninu plötusafn hans til varðveislu og þar var einnig að finna afgangs upplagið af útgáfunni sem hann stóð fyrir.

Plöturnar voru að mestu leyti helgaðar íslensku efni s.s. með Sigurði Skagfield, Karlakór verkamanna, Svavari Lárussyni, Jóhanni Jósefssyni og fleirum en þar var reyndar einnig að finna plötur með Jussi Björling, Snoddas (Gösta Nordgren, Toralf Tollefsen og Gellin og Borgström svo nokkur dæmi séu nefnd.