Stallsystur (1951)

Sönghópurinn Stallsystur var starfræktur um nokkurt skeið vorið og fyrri part sumars 1951 og skemmti þá m.a. í Vetrargarðinum í Vatnsmýrinni þegar þar opnaði um vorið en einnig í nokkur skipti utan hans, s.s. í Tjarnarcafé og víðar um höfuðborgarsvæðið.

Stallsystur var söngkvartett sem söng undir stjórn Eddu Skagfield og er líklegt að hún hafi því verið ein söngkvennanna sem allar voru fremur ungar, Svava S. Vilbergsdóttir var einnig ein þeirra en ekki liggja fyrir upplýsingar um aðra meðlimi kvartettsins og er því óskað eftir upplýsingum um þær.

Um svipað leyti var annar sönghópur af svipuðu tagi að gera það gott – Öskubuskur, og var Svava í þeim hópi einnig.