Snillingarnir [2] (2001-06)

Danshljómsveit sem bar nafnið Snillingarnir starfaði laust eftir síðustu aldamót og lék framan af mestmegnis á Kaffi Reykjavík.

Snillingarnir komu fyrst fram í upphafi árs 2001 og í einhverjum fjölmiðlum var hún kölluð Sniglabandið en þrír meðlima sveitarinnar komu úr þeirri sveit, þeir Pálmi J. Sigurhjartarson hljómborðsleikari, Björgvin Ploder trommuleikari og Einar Rúnarsson hljómborðsleikari, aðrir meðlimir voru Stuðmennirnir Þórður Árnason gítarleikari og Tómas M. Tómasson bassaleikari og svo söngkonan Berglind Björk Jónasdóttir sem þá hafði sungið töluvert með Borgardætrum.

Sveitin var nokkuð virk í dansleikjaspilamennsku á höfuðborgarsvæðinu, einkum Kaffi Reykjavík, fram á vorið 2003 en eftir það fór minna fyrir henni og svo virðist sem einungis hafi verið talið í gigg við hátíðleg tækifæri eftir það. Þannig söng Gunnar Ólason ásamt Berglindi Björk með sveitinni á Gullöldinni um haustið 2004 og svo virðist sem einhverjar mannabreytingar hafi þá orðið á sveitinni, einnig lék sveitin á tveimur þorrablótum sjálfstæðisflokksins snemma árs 2005 og 2006 en ekki liggur fyrir hver/jir skipuðu sveitina þá.