BP og þegiðu Ingibjörg (1991-2001)

BP og þegiðu Ingibjörg

Hljómsveitin BP og þegiðu Ingibjörg fór mikinn á Gauknum og Amsterdam á síðasta áratug liðinnar aldar og vakti hvarvetna kátinu en sveitin var eins konar angi af Sniglabandinu góðkunna.

Nafn sveitarinnar var skírskotun í hina ísfirsku BG og Ingibjörgu en ekki þótti öllum það við hæfi. Hvort sem það var vegna þess eða einhvers annars þá styttu þeir félagar nafnið í BP árið 1998 en síðar kölluðu þeir sig BP og þegiðu.

Sveitin var stofnuð í lok árs 1991 og voru meðlimir hennar frá upphafi Björgvin Ploder (BP) trommuleikari, Friðþjófur Ísfeld Sigurðsson bassaleikari og Einar Rúnarsson hljómborðsleikari sem allir komu úr Sniglabandinu, og Tómas Tómasson gítarleikari sem m.a. hefur leikið með Rokkabillíbandi Reykjavíkur. Allir sungu þeir félagar og sprelluðu.

Sveitin starfaði með hléum allt til ársins 2001 þegar hún hætti störfum, hún hefur þó komið saman eftir það og spilað á lokuðum samkomum s.s. árið 2013.