Afmælisbörn 12. ágúst 2018

Halldóra Geirharðsdóttir

Glatkistan hefur þrjú tónlistartengd afmælisbörn á skrá sinni í dag:

Fyrsta skal nefna Halldóru Geirharðsdóttur (Dóru Wonder) leik- og tónlistarkonu en eins og margir muna var hún söngkona og saxófónleikari hljómsveitarinnar Risaeðlunnar eða Reptile eins og hún kallaðist á erlendri grundu. Sú sveit gaf út nokkrar plötur en söng hennar má einnig heyra á plötum sem gefnar hafa verið út í tengslum við leikhús. Halldóra á stórafmæli í dag en hún er fimmtug.

Önnur tónlistarkona, Oddný Sturludóttir hljómborðsleikari og píanókennari er fjörutíu og tveggja ára á þessum degi. Oddný lék meðal annars með hljómsveitinni Ensími á upphafsárum þeirrar sveitar og starfrækti einnig ung að árum Tríó Oddnýjar en hefur hin síðustu ár sinnt tónlistarkennslu, blaðaskrifum og embættisstörfum á vegum Reykjavíkurborgar svo dæmi séu tekin.

Að síðustu er hér nefndur harmonikkuleikarinn Jón Þorsteinsson en hann er þrítugur og á því einnig stórafmæli. Jón hefur lokið einleikaraprófí í klassískum harmonikkuleik og vann sér meðal annars það til frægðar að leika einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands aðeins níu ára gamall, þrettán ára sigraði hann einleikarakeppni MENOR en sú keppni er haldin meðal harmonikkuleikara.