Afmælisbörn 11. ágúst 2018

Ólafur Gaukur Þórhallsson

Afmælisbörn í fórum Glatkistunnar eru fjögur talsins að þessu sinni:

Bragi Ólafsson bassaleikari og rithöfundur er fimmtíu og sex ára. Upphaf ferils Braga á tónlistarsviðinu miðast við pönkið en hann var bassaleikari Purrks Pillnikk og síðan nokkurra náskyldra hljómsveita s.s. Pakk, Stuðventla, Brainer, Amen, Bacchus og P.P. djöfuls ég, áður en hann gekk til liðs við Sykurmolana sem varð hans síðasta sveit áður en hann einbeitti sér að rithöfundarferli sínum.

Einar Bragi Bragason saxófónleikari er fimmtíu og þriggja ára gamall en hann hefur starfað með ótal hljómsveitum og tónlistarmönnum í gegnum tíðina, frægust þeirra er án efa Stjórnin en einnig má nefna Sumargleðina, Hljómsveit Hauks Morthens, Afsakið, Þáþrá og Babadú svo einungis örfáar séu nefndar. Einar Bragi starfaði lengi sem skólastjóri Tónlistarskólans á Seyðisfirði en gegnir nú sama starfi á Vopnafirði. Hann hefur gefið út sólóefni.

Karin Sveinsdóttir söngkona er tuttugu og tveggja ára gömul í dag, hún vakti nokkra athygli með dúettnum Young Karin fyrir fáeinum árum síðan en það samstarf hófst eftir að hún hafði tekið þátt í söngkeppni Menntaskólans við Hamrahlíð, sá dúett gekk upphaflega undir nafninu Highlands. Hún hefur einnig starfað með hljómsveitinni Sxsxsx.

Ólafur Gaukur Þórhallsson tónlistarmaður átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést 2011. Ólafur Gaukur (f. 1930) var kunnur gítarleikari, starfaði í og starfrækti fjöldann allan af hljómsveitum, auk þess að semja tónlist og texta, útsetja og annast upptökur. Hann starfrækti ennfremur gítarskóla og plötuútgáfu. Ólafur Gaukur hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2007.