Ólafur Gaukur Þórhallsson (1930-2011)

Ólafur Gaukur Þórhallsson

Ólafur Gaukur Þórhallsson skipar sér meðal þekktustu tónlistarmanna íslenskrar tónlistarsögu en hann var í fremstu röð í hartnær hálfa öld sem gítarleikari, laga- og textasmiður, útsetjari, hljómsveitastjóri, gítarkennari og jafnvel útgefandi. Hann starfaði með ótal tónlistarfólki og kemur við sögu á hundruð platna.

Ólafur Gaukur (fæddur 1930) byrjaði að fikta við gítar á táningsaldri og var farinn að leika með hljómsveitum á menntaskólaaldri, lék t.d. sautján ára árið 1947 með sveit sem kallaði Crazy rthythm tríó/kvartett og GO kvintettnum um svipað leyti, sem kenndur var við Gunnar Ormslew saxófónleikara. Ári síðar var hann farinn að starfrækja eigin sveitir, tríó og kvartett auk þess sem hann lék með Hljómsveit Björns R. Einarssonar, Hljómsveit Carls Billich og Hljómsveit Steinþórs Steingrímssonar. Hann starfrækti alltaf eigin sveitir samhliða því að leika með öðrum. Reyndar fór svo að Ólafur hætti í Menntaskólanum  í Reykjavík þar sem svo mikið var að gera í tónlistinni, hann lauk þó stúdentsprófi ári síðar við Menntaskólann á Akureyri.

Eftir stúdentspróf hóf Ólafur læknanám en hætti námi eftir þriðja ár og sneri sér þá alveg að tónlistarferli sínum. Hann hafði byrjað að leika með KK sextett 1950 og lék einnig með fleiri sveitum á þessum árum, Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar, aftur með Hljómsveit Björns R. Einarssonar og Tríói Kristjáns Magnússonar sem m.a. lék með Ronnie Scott þegar hann kom til Íslands 1954. Ólafur var einmitt einn þeirra sem stofnaði Jazzklúbb Reykjavíkur árið 1949 sem flutti m.a. inn Ronnie Scott en sá klúbbur átti eftir að starfa í tæplega tvo áratugi.

Tríó og hljómsveitir í nafni Ólafs Gauks voru í nokkur skipti fengin til að leika inn á plötur á sjötta áratugnum, m.a. árið 1954 þegar sveitir hans léku undir söng Öskubuskna á tveim plötum (Bjartar vonir vakna / Hadderí haddera og Óskalandið / Seztu hérna hjá mér) en einnig plötum með Öddu Örnólfs og Ólafi Briem (Indæl er æskutíð / Íslenzkt ástarljóð), Don Ardin (Eftirhermur / Sleeping beauty), Hauki Morthens (Abba-lá / Ég er kominn heim) og Ragnari Bjarnasyni (Anna / Anna í Hlíð).

Þó svo að Gaukurinn (eins og hann var iðulega kallaður) væri að mestu sjálflærður í tónlistinni nam hann gítarleik í Tónlistarskólanum í Reykjavík, og síðar einnig tónsmíðar. Hann var á þessum árum farinn að semja lög sjálfur og texta, og átti hann eftir að verða nokkuð áberandi fyrir þær lagasmíðar. Ólafur Gaukur starfaði jafnframt um tíma á sjötta áratugnum sem blaðamaður og jafnvel ritstjóri en hann var vel ritfær.

Það var síðan árið 1960 sem Gaukurinn stofnaði Leiktríóið sem var fastráðið í Leikhúskjallaranum, Svanhildur Jakobsdóttir hóf þá að syngja með tríóinu en þau Ólafur áttu síðar eftir að rugla saman reitum. Ólafur hafði verið kvæntur áður. Hann lék einnig í Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar um það leyti og hafði nóg að gera við gítarkennslunámskeið, það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi þar sem hann kenndi á gítar í gegnum bréfaskóla en hann hafði sjálfur ágæta reynslu af þess konar námi.

1962 var hann með hljómsveit í eigin nafni og upp úr því komu út tvær litlar plötur sem höfðu að geyma leik sveitarinnar með söng Ómars Ragnarssonar (Mömmuleikur / Sjö litlar mýs og Ó Vigga / Karlagrobb) en einnig kom út plata með instrumental leik sveitarinnar (Limbó dans / Vakna Dísa).

Ólafur Gaukur og Svanhildur

Það var svo ekki fyrr en um 1965 sem Sextett Ólafs Gauks varð til, líklega var þar ekki um sömu sveit að ræða og hafði borið nafnið Hljómsveit Ólafs Gauks. Sextettinn skartaði meðal annarra söngkonunni Svanhildi Jakobsdóttur sem þá var orðin eiginkona Gauksins, og naut sveitin þegar mikilla vinsælda mitt í miðri hringiðu Bítla og síðar blómabarna. Sveitin, sem lék aðallega í fyrstu á Hótel Borg við miklar vinsældir og aðsókn, tileinkaði sér marga stíla og lék m.a. bítlatónlist í bland við eldra efni og frumsamið, og þegar nokkrar litlar plötur komu út með sveitinni á árunum 1967-73 á vegum SG-hljómplatna naut sveitin mikilla vinsælda sem náðu hápunktinum þegar nýstofnað Ríkissjónvarpið (stofnað haustið 1966) gerði nokkra þætti með hljómsveitinni, sem höfðu að geyma leik (og „leik“) hennar undir stjórn hjónanna Ólafs og Svanhildar. Ekki skemmdi að söngvarinn Rúnar Gunnarsson, sem þá var á hátindi ferils síns, starfaði með sveitinni um það leyti.

Ekki minnkuðu vinsældir Sextetts Ólafs þegar stór plata með fjórtán lögum Oddgeirs Kristjánssonar kom út 1968 og átti stóran þátt í að gera hin svokölluðu Eyjalög að því sem þau eru í dag. Á stóru plötunni er m.a. að finna lögin Ég veit þú kemur, Ship-o-hoj, Bjartar vonir vakna, Blítt og létt, Ágústnótt o.fl. sem allir þekkja, en á litlu plötum sextettsins er ennfremur að finna sígildar perlur eins og Undarlegt með unga menn, Þú ert minn súkkulaðiís, Því ertu svona uppstökk?, Út við himinbláu sundin, Húrra nú ætti að verða ball og Segðu ekki nei. Sveitin varð meðal vinsælustu hljómsveita landsins og lék víða um land en fór einnig nokkuð erlendis til að spila. Sextettinn starfaði alveg fram á níunda áratuginn en gekk síðari árin undir nafninu Hljómsveit Ólafs Gauks.

Samstarf Ólafs við SG-hljómplötur og Svavar Gests varð ennfremur náið og Gaukurinn vann að ýmsum verkefnum fyrir útgáfuna, m.a. við útsetningar, hljómsveitastjórnun og upptökustjórnun en einnig við að semja lög og einkum texta fyrir ýmsa listamenn á vegum SG-hljómplatna. Þarna má nefna texta eins og Bláu augun þín og Fyrsti kossinn með Hljómum, Heyr mína bæn með Elly Vilhjálms, Einni ég ann þér með Vilhjálmi Vilhjálmssyni, Mærin frá Mexíkó og Kokkur á kútter frá Sandi í flutningi Ragnars Bjarnasonar. Þetta er þó einungis lítið brot af þeim þekktu textum sem hann orti, og þess má geta að fjölmargir þekktir jólatextar eru meðal þeirra, í flutningi t.d. Kötlu Maríu og Svanhildar Jakobs.

Tveir textar Gauksins fóru þó iðulega í taugarnar á honum sjálfum, annars vegar textinn Hátíð í bæ (Ljósadýrð loftin gyllir) sem honum fannst flytjendur oftar en ekki afbaka og flytja vitlaust, og textinn við Æ, ó, aumingja ég, sem hann hafði samið í einhverjum flýti, aldrei gefið samþykki sitt fyrir opinberum flutningi og hvað þá útgáfu hans, sem kom þá út í óþökk höfundarins.

Ólafur Gaukur við upptökur á plötu Kötlu Maríu

Gaukurinn vann ennfremur við útsetningar og hljómsveitastjórn á plötum Ómars Ragnarssonar, Kötlu Maríu, Varðeldakórsins, Viðars og Ara Jónssona, Skagakvartettsins og Hauks Morthens svo dæmi séu tekin, og síðar vann hann strengja- og blástursútsetningar fyrir tónlistarfólk eins og Björk, Sykurmolana, Emiliönu Torrini, Guðrúnu Gunnars og Friðrik Ómar.

Hann lék aukinheldur á plötum tónlistarfólks eins og Þormars Ingimarssonar, Garðars Olgeirssonar, Grettis Björnssonar, Braga Hlíðberg, Eddu Heiðrúnar Backman, Bjarna Sigurðssonar frá Geysi og Graham Smith auk auðvitað Svanhildar og Önnu Mjallar dóttur sinnar en með þeirri síðar nefndu vann hann m.a. Eurovision lagið Sjúbídú sem hún flutti sem fulltrúi Íslands í lokakeppninni 1997.

Ólafur hafði kennt á gítar samhliða spilamennsku og öðrum verkefnum en um miðjan áttunda áratuginn setti hann á stofn gítarskóla í eigin nafni, Gítarskóla Ólafs Gauks sem hann starfrækti fram í andlátið. En Gaukurinn hugði sjálfur á frekara nám, sem fyrr segir hafði hann eitthvað lært á gítar við Tónlistarskólann í Reykjavík og einnig verið þar í tónsmíðanámi en upp úr 1980 söðlaði hann um og hélt til Bandaríkjanna og nam tónsmíðar og kvikmyndatónlist í Los Angeles og fór svo í framhaldsnám að því loknu, um eins konar fjarnám var að ræða og var hann með fjölskyldu sína vestanhafs yfir sumartímann en starfaði hér heima annars. Að loknu náminu bauðst honum að kenna við skólann en afþakkaði það og vildi fremur starfa heima á Íslandi. Hann vann þó lítt við kvikmyndatónlist, gerði þó tónlistina við kvikmyndina Benjamín dúfu og vann við einhver smærri verkefni.

Ólafur Gaukur fékkst við ýmis annars konar tónlistartengd verkefni en hér hafa verið nefnd, hann starfaði t.d. sem dagskrárgerðarmaður í útvarpi um tíma og var framarlega í félagsmálum tónlistarfólks. Hann var formaður Félags dægurlagatextahöfunda og starfaði bæði fyrir STEF (Samband tónskálda og eigendur flutningsréttar)  og FÍH (Félag íslenskra hljómlistarmanna).

Hann hlaut ýmis konar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistar á Íslandi, hann fékk t.d. heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2006, tveimur árum var hann sæmdur Hinni íslensku fálkaorðu og sama ár var hann gerður að heiðurfélaga í FTT (Félagi tónskálda og textahöfunda), árið 2009 hlaut hann svo Gullnöglina, viðurkenningu sem Björn Thoroddsen gítarleikari hefur stofnað til og veitt árlega.

Gaukurinn með Önnu Mjöll dóttur sinni

Gaukurinn sendi aldrei frá sér sólóefni útgefið á plötum en árið 2002 kom út tíu laga plata sem þeir Jón Páll Bjarnason gítarleikari sendu frá sér undir titlinum 2 jazz gítarar, á þeirri plötu léku þeir félagar þekktar dægurlagaperlur í eigin djassútsetningum. Útgáfufyrirtækið Tónaljón gaf plötuna út en það var í eigu Ólafs Gauks og hafði gefið út nokkrar plötur með Svanhildi og Önnu Mjöll dóttur þeirra en hún hafði fetað tónlistarbrautina eins og foreldrarnir, sem fyrr hefur komið fram.

Árið 2010 sendi útgáfufyrirtækið Sena frá sér tvöfalda safnplötu sem bar heitið Syngið þið fuglar en Ólafur Gaukur var þá áttræður. Sena hafði eignast útgáfuréttinn af megninu af því sem Gaukurinn hafði sent frá sér og á plötunni var að finna efni tengt honum frá öllum tímum. Þá var hann orðinn veikur af krabbameini sem síðan dró hann til dauða ári síðar, 2011.

Ólafur Gaukur hafði sérstæðan stíl sem mörgum finnst koma einna best fram á plötu sextetts hans, Fjórtán lög frá Þjóðhátíð Vestmannaeyja eftir Oddgeir Kristjánsson. Þar blandaði hann saman gítar og blásturshljóðfærum sem hafa alveg sérstakt sánd sem engum öðrum verður eignað, og var einkennandi á plötum sextettsins í kringum 1970. Hann hafði ennfremur yfir að ráða mjög fjölbreytilegum stílbrögðum í tónlist sinni, oft með djassívafi sem flestir eru á að hafi verið einkar smekklega unnið og með látlausum hætti.

Lög Ólafs hafa komið út á ógrynni safnplatna og annarra platna í gegnum tíðina, þau verða hér ekki upp talin enda skipta plöturnar sjálfsagt hundruðum sem hann kom að, í hlutverki hljómsveitarstjóra, útsetjara, laga- eða textahöfundar, eða bara sem hljóðfæraleikari. Í listanum sem finna má í Efni á plötum hér að neðan er einungis að finna plötur sem hann kom beint að sem hljómsveitarstjóri eða sem aðalflytjandi.

Efni á plötum