Ólafur Þ. Jónsson (1936-2012)

Ólafur Þ. Jónsson

Tenórsöngvarinn Ólafur Þ. Jónsson var aldrei áberandi á íslensku söngsviði en hann starfaði mestan part ferils síns í Austurríki og Þýskalandi.

Ólafur Þorsteinn Jónsson fæddist 1936 í Reykjavík og hóf að nema söng sautján ára gamall, fyrst hjá Sigurði Skagfield, Kristni Hallssyni og Sigurði Demetz áður en hann hélt til Salzburg og síðan Vínar í Austurríki til frekari söngnáms. Áður hafði hann komist á samning hjá Þjóðleikhúsinu og starfði í tvö ár sem leikari, í Þjóðleikhúsinu söng hann lítið hlutverk í Töfraflautunni veturinn 1956-57.

Haustið 1958 fór Ólafur síðan til Austurríkis og að söngnámi loknu þar var hann ráðinn að óperuhúsinu í Heidelberg í Þýskalandi og síðan til Hamborgar, Lübeck og Mainz. Á áttunda áratugnum starfaði hann um tíma í Luzern í Sviss og lauk starfsferli sínum í Eggenfelden í Þýskalandi 2012 þar sem hann hafði þá starfað á þriðja áratug. Þar fékkst Ólafur einnig við leikstjórn.

Ólafur söng fjölda gestahlutverka víða um Evrópu s.s. Hollandi, Sviss, Lúxemborg, Danmörku og á Íslandi. Hann gekk alla tíð undir nafninu Olaf Thorsten í óperu- og leikhúsheiminum erlendis.

Árið 1973 kom út plata á vegum SG-hljómplatna sem  hafði að geyma fjórtán íslensk sönglög en það var eina platan sem gefin var út í hans nafni, einnig er söng hans að finna á plötu með lögum Árna Björnssonar tónskálds, gefin út af SG-hljómplötum einnig, 1980. Fjöldi íslenskra laga voru tekin upp með honum á vegum Ríkisútvarpsins en þau hafa hvergi verið gefin út.

Ólafur bjó ásamt eiginkonu sinni alla tíð erlendis, hann lést vorið 2012.

Efni á plötum