Bjarni Þorsteinsson (1861-1938)

Sr. Bjarni Þorsteinsson

Nafni og minningu sr. Bjarna Þorsteinssonar verður vafalaust haldið á lofti um aldur og ævi en hann safnaði þjóðlögum og gaf út á bók og stuðlaði þannig að varðveislu menningararfs sem annars hefði glatast, hann var aukinheldur tónskáld og margt fleira.

Bjarni fæddist á Mýrunum haustið 1861 og ólst upp við tónlist án þess þó að njóta einhverrar langskólamenntunar á því sviði, hann nam þó orgelleik og tónfræði hjá Jónasi Helgasyni um skamman tíma á námsárum sínum í Reykjavík, þá gekk hann í Söngfélagið Hörpu sem Jónas var í forsvari fyrir.

Eftir nám í Lærða skólanum í Reykjavík lauk Bjarni prófi úr Prestaskólanum og fékk embætti á Siglufirði þar sem hann átti eftir að þjóna í fjörutíu og sjö ár sem hlýtur að teljast með því lengsta sem þekkist í þeim bransa. Hann gegndi auk þess margvíslegum öðrum störfum og embættum þar í bæ, t.d. var hann barnakennari um tíma og forystumaður í sveitarstjórnarmálum, m.a. oddviti um tíma. Þá var hann mikill latínumaður, stundaði ættfræðirannsóknir og ljósmyndun svo dæmi séu nefnd.

Þá var Bjarni tónskáld og samdi fjöldann allan af sönglögum sem mörg hver voru og eru þekkt í flutningi ýmissa kóra og einsöngvara. Í raun var hann mun þekktari í samtíðinni sem tónskáld heldur en nokkurn tímann sem þjóðlagasafnari, meðal þekktustu tónverka hans má nefna lög eins og Kirkjuhvoll, Blessuð sértu sveitin mín, Ég vil elska mitt land, Gissur ríður góðum fáki, Systkinin og Sólsetursljóð svo fáein dæmi séu hér nefnd, og fjölmörg þeirra komu út á 78 snúninga plötum á meðan Bjarni var enn á lífi.

Þekktastur er Bjarni þó auðvitað fyrir starf sitt við að safna þjóðlögum frá ýmsum tímum og af ýmsum uppruna en því sinnti hann allt frá tvítugsaldri og í áratugi þrátt fyrir ýmis konar mótlæti en þjóðlögin þóttu þá að margra mati ekki merkilegur pappír á þeim tíma. Að minnsta kosti sáu íslenskir ráðamenn ekki ástæðu til að styrkja Bjarna til verksins á einn eða annan hátt. Þegar hann sótti um styrk til að komast í safn Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn og vinna þar rannsóknarvinnu í nokkra mánuði var það mestmegnis Dönum að þakka því þeir ákváðu að fjármagna rannsóknir hans ef íslensk yfirvöld myndu gera slíkt hið sama, en þá fyrst tóku íslenskir alþingismenn við sér.

Íslenzk þjóðlög

Þegar kom að því að gefa þjóðlagasafnið út var það sama uppi á teningnum, Íslendingar vildu ekkert með útgáfuna hafa og sáu enga ástæðu til að styrkja útgáfu bókar sem enginn myndi lesa eða hafa áhuga á, eins og einn alþingismannanna mun hafa sagt nokkurn veginn orðrétt, auk þess neitaði alþingi að greiða honum nokkur ritlaun. Hinn danski Carlsberg sjóður (í eigu bjórframleiðandans Carlsberg) gaf safnið hins vegar út í Danmörku undir titlinum Íslenzk þjóðlög á árunum 1906-09, veglegt þúsund blaðsíðna safn með ítarlegum inngangi og hátt í fimm hundruð þjóðlögum sem Bjarni hafði þar með bjargað frá glötun. Ekki er beinlínis hægt að segja að öll lögin hafi verið íslensk að uppruna en meginþorri þeirra er þó frá Íslandi eða eru erlend lög sem fengið hafa með tíð og tíma íslensk einkenni, stór hluti þessara laga höfðu varðveist eingöngu í munnlegri geymd og hefðu því án aðkomu Bjarna týnst um aldur og ævi.

Bjarni fékk ekki þá almennu viðurkenningu sem hann átti skilið í lifanda lífi, hann hlaut reyndar fálkaorðuna og prófessors nafnbót þegar hann var kominn á efri ár en hann þurfti lengi að berjast fyrir sínu. Smám saman eftir andlát hans (1938) tóku menn að opna augum fyrir því afreki sem hann hafði af hendi innt, og löngu síðar var til dæmis afhjúpaður minnisvarði á Siglufirði um Bjarna og hans verk. Viðurkenningin hefur ennfremur birst í útgáfu frímerkis af honum, bóka (t.a.m. Eldhugi við ysta haf e. Viðar Hreinsson (2011) og Ómar frá tónskáldaævi e. Ingólf Kristjánsson (1961) og platna en fjöldi tónlistarmanna hefur sótt í smiðju Bjarna, bæði frumsaminna laga hans sem og þjóðlaganna. SG-hljómplötur sendu t.d. frá sér hljómplötu árið 1972 með söng Karlakórs Reykjavíkur sem hafði að geyma lög Bjarna og 2009 kom út plata á vegum Smekkleysa sem bar heitið Gersemar Þjóðlagasafnsins: Lög úr þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar, á henni er að finna þrjátíu og níu lög, sungin af Mörtu Guðrúnu Halldórsdóttur, flest í útsetningu Hildigunnar Rúnarsdóttur en Una Margrét Jónsdóttir hafði haft veg og vanda af útgáfunni, hún hafði þá gert þáttaröð í Ríkisútvarpinu með sama nafni.

Fjölmargir aðrir hafa unnið með og flutt tónlist Bjarna á hljómplötum og geisladiskum, þeirra á meðal má nefna Þursaflokkinn, Dómkórinn, Hamrahlíðarkórinn, Islandicu, Hrein Pálsson, Sigurð Skagfield, Þrjú á palli, Samkór Mýramanna og Karlakórinn Vísi á Siglufirði en Bjarni var einn af stofnendum hans árið 1923 og var síðar gerður að heiðurfélaga í kórnum.

Efni á plötum