Björn Ólafsson (1917-84)

Björn Ólafsson

Björn Ólafsson fiðluleikari var með merkari frumkvöðlum í íslensku tónlistarlífi en hann var fyrsti konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands og kenndi samhliða því mörgum af þeim fiðluleikurum sem störfuðu með honum í sveitinni. Í minningargrein um hann var reyndar gengið svo langt að tala um Björn sem föður Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Björn fæddist í Reykjavík 1917, hann missti föður sinn mjög ungur en hann hafði m.a. annað sungið með kórum, móðir hans hafði hins vegar lært á píanó þannig að músík var Birni nokkuð í blóð borin. Hann varð því áhugasamur um tónlist og eignaðist fiðlu sex ára, hann var farinn að læra hjá Þórarni Guðmundssyni aðeins átta ára gamall og þá strax þótti ljóst að um mikið efni var að ræða. Svo fór að Björn gekk í nýstofnaðan Tónlistarskólann í Reykjavík árið 1930 og var einn fjögurra sem luku burtfararprófi fjórum árum síðar, hann var þá aðeins sautján ára gamall og fyrstur Íslendinga til að ljúka prófi í fiðluleik við skólann og þar með hér á landi.

Björn stefndi hærra og hann fékk inngöngu í framhaldsnám í fiðluleik í Vín í Austurríki, sökum ungs aldurs hans fór móðir hann með honum og var honum stoð og stytta í náminu. Því námi lauk hann 1938 og bauðst þá konsertmeistarastaða við Fílharmoníuna þar í borg. Hann hafði hug á þeirri stöðu, kom heim til Íslands að því er virðist í stutt frí en fór aldrei aftur til Austurríkis þar sem spennan hafði verið að magnast í Evrópu þessa mánuði og heimsstyrjöldin síðari skall síðan á haustið 1939.

Það varð því úr að Björn varð hér heima og kannski sem betur fer fyrir íslenska tónlist því hér heima nýttist hann við ýmist tónlistartengd verkefni, hann hóf fljótlega að kenna á fiðlu við Tónlistarskólann í Reykjavík, og varð fljótlega yfirkennari skólans.

Björn með atvinnuhljóðfærið

Samhliða kennslunni lék hann á fjölda tónleika, oft með Árna Kristjánssyni píanóleikara við miklar vinsældir en þeir tveir störfuðu mikið saman og skópu þá hefð sem kallaðir voru þá Háskólatónleikar, og kallast enn í dag. Þá átti Björn stóran þátt í stofnun Hljómsveitar Tónlistarskóla Reykjavíkur árið 1942 sem hann síðan stjórnaði, hann kom einnig að stofnun Hljómsveitar Reykjavíkur hinni síðari og var konsertmeistari þeirrar sveitar en hún var einn af undanförum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem sett var á laggirnar árið 1950. Björn var jafnframt  meðal forsprakka þeirrar sveitar og var konsertmeistari hennar frá upphafi og allt til ársins 1973. Margir nemenda Björns voru einnig í Sinfóníuhljómsveitinni og var talað um að hann hefði alið upp heila kynslóð fiðluleikara.

Auk ofangreindra hljómsveita starfrækti Björn og starfaði með ýmsum minni sveitum í formi tríóa og kvartetta, m.a. má nefna frægan strengjakvartett sem gekk undir nafninu Kvartett Björns Ólafssonar, þá starfaði hann með Tríói Tónlistarskólans í Reykjavíku en báðar þessar sveitir léku reglulega í útvarpssal. Þess má geta að þegar Björn var aðeins þrettán ára gamall hafði hann stofnað strengjakvartett ásamt nokkrum eldri drengjum, sem starfaði um nokkurra mánaða skeið.

Draumur Björns um konsertmeistarastarfið í Vín varð aldrei að veruleika og ekki virtist hann gráta það neitt sérstaklega því honum er lýst sem glaðlyndum, áhugasömum og ástríðufullum hljóðfæraleikara sem hafði unun af kennslunni. Hann starfaði alltaf hér heima að námi sínu loknu utan þess að hann dvaldi einn vetur í New York seint á fimmta áratugnum við nám.

Það var Birni mikið áfall þegar hann veiktist um miðjan áttunda áratuginn og þá varð hann að leggja hljóðfæraleik og tónlistarkennslu á hilluna, þau veikindi drógu hann að lokum til dauða vorið 1984 en hann var þá ekki orðinn sjötugur.

Leik hans er hins vegar ekki að finna á mörgum hljómplötum, plata kom reyndar út árið 1960 á vegum Fálkans þar sem þeir Fritz Weisshappel píanóleikari léku saman fjögur lög. Tveimur árum fyrr höfðu þeir Björn og Páll Ísólfsson orgelleikari leikið á plötu Þuríðar Pálsdóttur, Jólasálmum, sem er fyrsta stóra jólabreiðskífan sem kom út á Íslandi og hefur margsinnis verið endurútgefin. Báðar þessar plötur voru gefnar út af Fálkanum.

Vitað var að einhverjar upptökur með fiðluleik Björns hefðu varðveist í Ríkisútvarpinu og þegar Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari vann útvarpsþætti um hann í tilefni af aldarafmæli hans árið 2017, voru nokkrar slíkar dregnar fram í dagsljósið. Í kjölfarið réðist Hlíf í frekari athuganir á upptökum með Birni og kom upp úr kafinu að um hundrað og fimmtíu slíkar var að finna í fórum Ríkisútvarpsins, þar af fimmtíu og fjórar með leik strengjakvartetts hans. Hlíf fékk bandaríska útgáfufyrirtækið 4Tay records til liðs við sig og haustið 2020 kom út plata með úrvali efnis úr þessum upptökum þar sem elstu upptökurnar voru frá fimmta áratugnum og þær yngstu frá því um miðjan áttunda áratuginn. Hún bar titilinn Sagan í tónum: úr hljóðritasafni Ríkisútvarpsins og er sú plata mikill hvalreki fyrir áhugafólk um sögu sígildrar tónlistar á Íslandi og verður til að halda nafni Björns á lofti um ókomna tíð.

Þrátt fyrir að fiðluleik Björns sé ekki að finna á mörgum útgefnum plötum er enginn vafi á því að áhrif hans á íslenska tónlist eru mikil og margir þjóðþekktir strengjaleikarar nutu góðs af kennslu hans, meðal þeirra eru hér nefnd Guðný Guðmundsdóttir, Helga Hauksdóttir, Ingvar Jónasson, Árni Arinbjarnarson, Einar G. Sveinbjörnsson, Einar B. Waage og Rut Ingólfsdóttir.

Björn hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín og frumkvöðlastarf í íslenskri tónlist, hlaut t.a.m. fálkaorðuna 1961.

Efni á plötum