
Helgi Hermannsson
Glatkistan hefur í dag að geyma tvö Vestmanneyjatengd afmælisbörn:
Helgi Hermannsson gítarleikari og söngvari frá Vestmannaeyjum er sjötíu og eins árs gamall í dag. Helgi starfaði með ýmsum hljómsveitum í Vestmannaeyjum hér fyrrum og síðar einnig uppi á landi en meðal þeirra má nefna Bobba, Loga, Hljómsveit Gissurar Geirs, Skugga og Víkingasveitina. Þá hefur hann komið við sögu á plötum sem hafa að geyma Eyjatengd lög og á plötum Gísla Helgasonar, Lýðs Ægissonar og fleiri.
Ástgeir Ólafsson (Ási í Bæ) hefði átt afmæli á þessum degi. Ási (1914-85) sýndi ungur hæfileika til að spila á ýmis hljóðfæri, lærði á þau nokkur og hóf að semja lög og texta. Mörg þeirra hafa löngu síðan öðlast sess sem sígild lög, kennd við Vestmannaeyjar þar sem hann bjó. Hann samdi fjölmörg þjóðhátíðarlög og aðrar lagasmíðar sem aðrir hafa flutt en einnig komu út plötur með honum sjálfum. Meðal laga og texta Ása má nefna Ég veit þú kemur, Gamla gatan, Sólbrúnir vangar og Göllavísur.