Ási í Bæ (1914-85)

Ási í Bæ1

Ási í Bæ

Ási í Bæ, einn ástsælasti tónlistarmaður Vestmannaeyja og höfundur fjölmargra þekktra þjóðhátíðartexta og annarra laga sem Eyjarnar eru þekktar fyrir, bjó við erfið lífsskilyrði einkum vegna fötlunar en lét það aldrei aftra sér og notaði tónlistina og aðra skáldagáfu til að koma sínu á framfæri.

Ási (Ástgeir Ólafsson) fæddist 1914 í Vestmannaeyjum, hann var iðulega kenndur við Bæ (Litlabæ við Strandveg) þar sem fjölskylda hans bjó í Eyjum, og þannig hlaut hann gælunafnið Ási í Bæ strax í æsku.

Þess má til gamans geta að fréttaritarinn góðkunni, Kristinn R. Ólafsson er hálfbróðir Ása, og Kristín Ástgeirsdóttir fyrrverandi alþingiskona er dóttir hans.
Ási var á unglingsaldri (um þrettán ára gamall) þegar hann fékk beinátu og var reyndar á tímabili vart hugað líf, og upp frá því varð hann bæklaður á vinstri fæti, um þrítugt var fóturinn réttur af en um fimmtíu og fimm ára aldur var hann tekinn af við hné. Stoðtækjafyrirtækið Össur sem hóf starfsemi 1971, gerði Ása að eins konar tilraunadýri við að þróa gervilimi en haltur var hann þó alla ævi frá unglingsárum. Kappinn lét aldrei fötlun sína stjórna lífi sínu, var kokkur á síldarbátum, háseti og skipstjóri en fékkst líka við störf í landi, starfaði til að mynda á skattstofunni í Eyjum, var bæjarritari í Eyjum og ritstjóri Eyjablaðsins og síðar Spegilsins enda ritfær mjög, hann gaf til dæmis út skáldsögur, ævisögu, smásögur, ritgerðir og önnur greinasöfn. Ási bjó í Vestmannaeyjum til ársins 1968 en þá fluttist hann til Reykjavíkur þar sem hann bjó til æviloka, hann lést 1985.

Tónlistaruppeldi hlaut Ási í Bæ enda var hann alinn upp við söng og leiklist en menningarlíf var mjög öflugt á þeim árum í Eyjum. Hann hafði snemma byrjað að semja vísur, og lærði einnig á fiðlu en hann var fyrsti fiðlunemandi Oddgeirs Kristjánssonar. Ási spilaði þó alltaf meira eftir eyranu en nótum. Hann lærði einnig á gítar hjá Oddgeiri og lék reyndar á flest hljóðfæri, auk þess sem hann var mikill söngmaður, var stundum brekkusöngstjóri á þjóðhátíð Vestmannaeyinga á árum áður. Fyrst og fremst verður hann þó líklega þekktur fyrir lög sín og þar er af mörgu að taka, Maja litla, Undrahatturinn, Göllavísur o.m.fl. auk þess að eiga enn fleiri þekkta söngtexta sem allir þekkja, til dæmis Ég veit þú kemur, Gamla gatan, Sólbrúnir vangar, Fréttaauki, Ég heyri vorið o.fl., margir þeirra ortir við lög Oddgeirs Kristjánssonar. Kunn er sagan á bak við textann af Ég veit þú kemur, en hann fjallar ekki um samband elskenda eins og einhverjir kynnu að halda heldur um samskipti Ása sjálfs við Oddgeir þegar sá síðarnefndi var ósáttur við að Ási hefði ekki samið texta við lagið.
Fjölmargir söngvarar hafa flutt lög og texta Ása í Bæ opinberlega og á útgefnum plötum, má þar m.a. nefna Árna Johnsen, Ernu Gunnarsdóttur, Helenu Eyjólfsdóttur, Bergþór Pálsson, Rúnar Gunnarsson, Sigurð Guðmundsson, Svanhildi Jakobsdóttur, Jóhann Sigurðarson, Karlakór Reykjavíkur, félaga úr Dómkórnum og Lundakvartettinn, svo fáeinir séu nefndir.

Ási í Bæ og Karl Sighvatsson1

Ási í Bæ ásamt Karli J. Sighvatssyni (t.v.)

Sjálfur söng Ási lög sín og texta á plötur, þar má fyrst nefna plötuna Eyjaliðið sem gefin var út til styrktar Vestmannaeyingum eftir náttúruhamfarirnar 1973, hann söng einnig á plötu Vísnavina, Vísnakvöld I (1980) en einnig gaf hann út sólóplötuna Undrahatturinn (1978) þar sem hann söng eigin lög við undirleik hljómsveitarinnar Bæjarsveitin, sem sett var saman af þessu sama tilefni. Í þeirri sveit var fremstur í flokki Karl Sighvatsson sem útsetti tónlistina en Iðunn gaf út plötuna. Ása þótti sopinn góður en við undirbúning plötunnar brá svo við að hann fór í sjö vikna bindindi til að hlífa röddinni fyrir upptökurnar en rödd Ása þótti annars fremur gróf og hrjúf, hún smellpassaði hins vegar við tónlistina á plötunni. Undrahatturinn hlaut ágætis viðtökur þótt ekki seldist hún sérlega vel, hún fékk t.d. prýðilega dóma í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum og tímaritinu Halló.

Þegar Ási varð sjötugur 1984 hélt hann tónleika í Norræna húsinu þar sem hann flutti ásamt fjöldanum öllum af tónlistarmönnum, lög sín. Þeir tónleikar voru gefnir út á snældu ásamt nokkru af efni, frásögnum hans sjálfs og fleira úr útvarpsþáttum, árið 1989 undir nafninu „Ó, fylgdu mér í Eyjar út“ – minningar með Ása í Bæ: Ási í Bæ syngur og segir frá. Þeir tónleikar voru síðan endurútgefnir ásamt samnefndri bók eða hefti sem hafði að geyma stutt æviágrip og myndir frá tónleikunum, af útgáfufyrirtækinu Fimmund árið 2004, árið sem hann hefði orðið níræður. Það sama ár var fyrri plata hans, Undrahatturinn endurútgefin af Zonet af sama tilefni og um svipað leyti voru haldnar söngskemmtanir og minningartónleikar um hann í Eyjum og í Reykjavík. Þá gaf Árni Johnsen út tvöföldu plötuna Gaman að vera til (2006) en uppistaðan á henni var efni eftir Ása í Bæ.

Óhætt er að segja að tónlist Ása í Bæ, og þó einkum textar hans, lifi enn góðu lífi í þjóðarvitundinni og munu gera það um árabil því hver þekkir ekki textann við þjóðhátíðarlagið, Ég veit þú kemur? Að lokum má nefna að unnið hefur verið að styttu af Ása í fullri líkamsstærð, sem mun ekki síður verða minnisvarði um þennan mæta mann og skipa honum í flokk meðal Oddgeirs Kristjánssonar, Árna úr Eyjum og fleiri kunnra Eyjamanna.

Efni á plötum