Ásgeir Sverrisson (1928-2008)

Ásgeir Sverrisson

Ásgeir Sverrisson

Ásgeir Sverrisson harmonikkuleikari starfrækti eigin hljómsveit um árabil og var framarlega í flokki gömlu dansa unnenda á bítla- og hippatímum þegar sú tónlist átti undir högg að sækja hérlendis sem annars staðar.

Ásgeir var fæddur 1928 í Hvammi í Norðurárdal, var í héraðsskólanum á Laugarvatni og síðar í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem hann lærði á píanó, hann nam þar einnig tónfræði og óbóleik. Hann varð þó kunnastur fyrir harmonikkuhæfni sína.

Ásgeir varð snemma viðloðandi tónlist, var í dómnefndum fyrir sönglagakeppnir S.K.T. og starfaði í hljómsveitum eins og E.K. kvartettnum, J.H. kvartettnum, Hljómsveit Carls Billich, Hljómsveit Óskars Cortes, Hljómsveit Aage Lorange og Hljómsveit Guðmundar Finnbjörnssonar áður en hann stofnaði eigin hljómsveit árið 1963 sem bar nafn hans, Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar.

Hljómsveit Ásgeirs var með langlífustu sveitum, starfaði hátt í tvo áratugi, og þar kynntist hann síðari eiginkonu sinni, söngkonunni Sigríði Maggý Magnúsdóttur (Siggu Maggý) sem söng með sveitinni. Hljómsveit Ásgeir gaf út eina litla plötu á vegum SG-hljómplatna. Síðar starfrækti hann tríóið Bergmenn, sem mun einnig hafa sérhæft sig í gömlu dönsunum.

Ásgeir var fyrst og fremst harmonikkuleikari sem fyrr segir, kom oft fram einn með nikkuna (og ásamt öðrum) til dæmis í útvarpi og hann hafði umsjón með harmonikkuþætti í Ríkisútvarpinu um árabil.

Ásgeir lést árið 2008, áttræður að aldri.

Sjá einnig Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar