Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar (1964-80)

Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar

Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar

Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar harmonikkuleikara sérhæfði sig í gömlu dönsunum um árabil, lengst af í Þórscafé, og var með langlífari sveitum í bransanum.

Sveitin var stofnuð 1964 og starfaði sleitulaust til 1975 en eitthvað slitrótt eftir það, hún starfaði þó að minnsta kosti til 1980 en þá var hún líkast til endanlega hætt. Sveitin kom aftur saman 1982 í tilefni af hálfrar aldrar afmæli Félags íslenskra hljómlistarmanna.

Allan tímann voru Ásgeir Sverrisson hljómsveitarstjóri og Sigríður Maggý Magnúsdóttir (Sigga Maggý) í sveitinni, Ásgeir var harmonikkuleikari (og lék einnig á píanó og óbó) en Sigríður söng (þau voru gift). Eitthvað er óljóst hverjir aðrir voru í sveitinni og hvenær, enn fremur var sveitin mis stór, fæst voru þau fjögur en flest líklega sex talsins. Stundum voru tveir söngvarar í henni, Sigríður þó alltaf en hinir voru (í réttri tímaröð) Björn Þorgeirsson (1964-65), Gunnar Páll Ingólfsson (1972-75) og Njáll Bergþór Sigurjónsson [?] (1978). Rúnar Guðjónsson söng einnig með sveitinni en ekki liggur fyrir hvenær. Ekki er ólíklegt að þeir Gunnar Páll og Njáll hafi einnig leikið á hljóðfæri í sveitinni (báðir voru liðtækir á bassa) en aðrir þekktir hljóðfæraleikarar með sveit Ásgeirs voru Bragi Einarsson klarinettuleikari, Karl Karlsson trommuleikari, Sighvatur Sveinsson gítarleikari, Þórhallur Stefánsson bassaleikari[?], Haukur Sighvatsson [?] og Guðmundur Garðar Hafliðason trommuleikari.

Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar var löngum fastagestur á sviðinu í Þórscafé en einnig í Lindarbæ, sveitin lék þó einnig annars staðar innan bæjar og utan. Sveitin gerðist svo fræg að fara til Færeyja og leika þar í viku sumarið 1974, var þess getið í fjölmiðlum, svo merkilegt þótti það.

Ein plata liggur eftir Ásgeir og félaga en hún kom út hjá SG-hljómplötum árið 1967, það var fjögurra laga smáskífa og bar hún heitið Fjórir polkar. Platan hlaut ágætar viðtökur, seldist vel og fékk góða dóma í Tímanum. .

Efni á plötum