Hljómsveit Aage Lorange (1931-61)

Hljómsveit Aage Lorange

Hljómsveit Aage Lorange

Hljómsveit Aage Lorange er án efa ein lífseigasta hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu, a.m.k. hvað óslitna spilamennsku varðar en hún starfaði samfleytt við vinsældir í um þrjátíu ár, á þeim árum léku hljómsveitir sem þessar flest kvöld vikunnar.

Sveitin var stofnuð af Aage Lorange (1907-2000) árið 1931 til að leika í Iðnó en upphaflegir meðlimir voru auk Aage sem lék á píanó, þeir Þórir Jónsson fiðluleikari og Bjarni Guðjónsson banjó- og trommuleikari.

Sveitin var því aðeins tríó í upphafi en smám saman fjölgaði í henni og voru menn eins og Sveinn Ólafsson saxófónleikari, Vilhjálmur Guðjónsson saxófónleikari og Hans Kragh trommuleikari viðloðandi hana, yfirleitt voru í sveitinni fimm til sex manns. Þannig lék hún til ársins 1936 í Iðnó en sama ár flutti sveitin sig yfir í Oddfellow húsið, þá var sveitin skipuð allt öðrum mannskap en það voru auk Aage þeir Þorvaldur Steingrímsson saxófón- og klarinettuleikari, Bjarni Böðvarsson harmonikku- og bassaleikari og Poul Bernburg trommuleikari, sá síðastnefndi átti eftir að starfa með Aage æ síðan. Jóhannes Eggertsson básúnuleikari lék enn fremur stundum með sveitinni. Ólafur Pétursson harmonikku- og saxófónleikari kom í stað Bjarna. Hljómsveitin lék víðar en í Oddfellow húsinu á þessum árum og m.a. í fjölmörgum revíum sem settar voru á svið í Reykjavík.

hljómsveit Aage Lorange 1946

Hljómsveit Aage Lorange 1946

Vorið 1946 urðu þáttaskil í sveit Aage þegar Sjálfstæðishúsið við Austurvöll opnaði (síðan Sigtún, enn síðar Nasa), þá var sveitin ráðin sem hússveit og þar átti hún eftir að starfa um langan tíma. Þorvaldur, Poul og Ólafur fylgdu Aage yfir á hinn nýja stað en aukinheldur gengu til liðs við þá Jónas Dagbjartsson trompet- og fiðluleikari, Skafti Sigþórsson saxófón- og fiðluleikari og Einar B. Waage saxófón- og bassaleikari. Þar með var sveitin orðin sjö manna. Einar staldraði ekki lengi við og tók Þórhallur Stefánsson við af honum og lék með sveitinni í skamman tíma áður en hann hætti og þar með var hún orðin sextett. Einhverjar fleiri mannabreytingar urðu í sveitinni, Ólafur Pétursson hætti 1948 og kom Jóhann Gunnar Halldórsson saxófón- og harmonikkuleikari í stað hans og einnig var Pétur Urbancic bassaleikari eitthvað viðloðandi sveitina. Skafti Sigþórsson hætti 1951 og þá hafði sextettinn breyst í kvintett.

Fyrri hluta sjötta áratugarins léku Aage og félagar inn á nokkrar 78 snúninga hljómplötur með söngvurunum Alfreð Clausen, Svavari Lárussyni og Soffíu Karlsdóttur, sem segir nokkuð um gæði sveitarinnar. Sveitin lék auk þess marg oft í útvarpi.

Aage hélt úti sveitinni til 1954 en hætti þá með formlegum hætti, hann var þó ekki lengi hljómsveitarlaus heldur stofnaði nokkrum vikum síðar nýja útgáfu af sveitinni en litlar upplýsingar er að finna um skipan þeirrar útgáfu, þó voru þeir Poul Bernburg trommuleikari, Karl Lilliendahl gítarleikari og Grétar Geirsson harmonikkuleikari (veturinn 1959-60) í þessari sveit, sem starfaði til ársins 1961. Þá var hljómsveitarrekstri Aage Lorange loks lokið en hann hafði þá starfrækt hljómsveit í þrjátíu ár.

Fjölmargir söngvarar komu við sögu Hljómsveita Aage Lorange á þeim langan tíma sem hún starfaði, á þeim tíma voru söngvarar lausráðnir með hljómsveitum og því skipta þeir tugum sem sungu með sveit Aage, hér má þó nefna Hauk Morthens, Sigurð Johnnie, Garðar Guðmundsson, Sigrúnu Ragnarsdóttur, Gerði Benediktsdóttur, Sigurð Ólafsson, Ragnar Bjarnason, Alfreð Clausen, Ólaf Briem, Elsu Sigfúss, Svavar Lárusson og Helgu Gunnarsdóttur svo nokkrir séu hér nefndir.

Þar sem fjöldi þeirra er skipuð hljómsveitina var misjafn er algengt að sjá hana kallaða ýmsum nöfnum, þannig er hún stundum í heimildum nefnd sextett, kvintett, kvartett, tríó og jafnvel Jazzband Aage Lorange, í grunninum er þó um sömu sveitina að ræða.

Þótt sveitin hefði hætt 1961 kom hún þó einu sinni saman áður en yfir lauk en það var á hátíð í tengslum við fimmtíu ára afmæli Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) 1982 en Aage var einn stofnenda félagsins, í þeirri útgáfu sveitarinnar voru auk Aage, þeir Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari, Jónas Þ. Dagbjartsson fiðluleikari, Ólafur Pétursson harmonikkuleikari, Pétur Urbancic bassaleikari og Poul Bernburg trommuleikari, allir komnir á efri ár. Leikur sveitarinnar rataði inn á hljómplötu (FÍH 50 ára: 1932-1982) sem gefin var út í tilefni þessa afmælis og er eini minnisvarðinn á plasti um þessa mætu sveit, utan þeirra laga sem þeir léku undir söng annarra.