
Björn Stefán Guðmundsson
Eftirfarandi eru fjögur afmælisbörn á lista Glatkistunnar:
Selfyssingurinn Einar (Þór) Bárðarson, oft nefndur umboðsmaður Íslands, er fjörutíu og sjö ára. Einar hefur komið víða við í tónlistarlegum skilningi en þekktastur er hann þó fyrir umboðsmennsku fyrir Nylon. Hann hefur einnig sinnt umboðsmennsku fyrir ýmsa aðra, samið tónlist (m.a. Ertu þá farin? með Skítamóral og Eurovision framlagið Birta / Angel), haldið tónleikaviðburði og komið að menningarviðburðum frá ýmsum hliðum. Einar lék og söng sjálfur með hljómsveitum í gamla daga, má þar nefna Dansband E.B. og Tomma rótara.
Trommuleikarinn Guðmundur Óli Pálmason á einnig afmæli í dag en hann á fjörutíu og eins árs afmæli. Guðmundur Óli lék lengst af með hljómsveitinni Sólstöfum og var reyndar einn af stofnendum sveitarinnar í ársbyrjun 1995, hann lék með Sólstöfum á annan tug smá- og breiðskífna en var rekinn úr hljómsveitinni í ársbyrjun 2015 svo úr varð nokkurt fjölmiðlafár.
Kristján Óskarsson hljómborðsleikari hefði einnig átt afmæli í dag en hann lést árið 2014. Kristján (f. 1959) lék með fjölda misþekktra hljómsveita á sínum tíma og má meðal annarra nefna sveitir eins og Smelli, Upplyftingu, Kusk, Chaplin, Danssveitinni, The Kúkó kids, KÓS og Þrek. Þess má geta að Kristján lék á orgel á fyrstu plötu Bubba Morthens, Ísbjarnarblús.
Þá er hér að síðustu nefndur Björn Stefán Guðmundsson kennari og skólastjóri úr Dölunum (1939-2018) sem átti afmæli á þessum degi. Hann kom að tónlist með ýmsum hætti, starfaði í kórum, stjórnaði barnakórum, stofnaði tónlistarskóla og kenndi þar, auk þess að leika sjálfur á hljóðfæri. Björn Stefán samdi einnig ljóð og árið 1991 kom út plata með lögum úr ýmsum áttum við ljóð hans, hún bar heitið Birtir af degi.