Afmælisbörn 20. mars 2019

Þorbjörg Roach Gunnarsdóttir

Afmælisbörnin tónlistartengdu eru fjögur að þessu sinni:

Tónskáldið Finnur Torfi Stefánsson er sjötíu og tveggja ára gamall í dag, hann hefur samið fjölbreytilega tónlist og má þar nefna óperu, hljómsveitaverk og verk fyrir einleikshljóðfæri, kammertónlist og rokk en á árum áður var hann í fjölmörgum hljómsveitum á tímum bítla og blómabarna. Þekktustu sveitir hans eru Óðmenn og 5-pence en einnig lék hann með Persónu, Rjóma, Tónabræðrum, Tónum og Töktum.

Gísli Rúnar Jónsson leikari er sextíu og sex ára en hann hefur komið víða við í tónlist þótt fyrst og fremst hafi hann verið skemmtikraftur. Tvær plötur hefur hann gefið út sem kalla mætti sólóplötur en einnig komu út plötur þar sem hann var í samstarfi við Halla og Ladda, með Júlíusi Brjánssyni sem Kaffibrúsakarlarnir og með Stefáni Karli Stefánssyni. Þá eru ótaldar plötur með tónlist úr söngleikjum og leikritum.

Þorbjörg Roach Gunnarsdóttir hljómborðsleikari úr Retro Stefson er tuttugu og níu ára gömul, hún hefur einnig leikið á harmonikku í minni hljómsveitum.

Jökull Júlíusson söngvari og gítarleikari Kaleo úr Mosfellsbænum er tuttugu og níu ára einnig, flestir þekkja hljómsveit hans en hún hefur verið að gera það gott í Bandaríkjunum. Jökull hefur einnig verið í hljómsveitinni St. Peter the leader en færri vita að hann lék og söng á plötu föður síns, Júlíusar Hjörleifssonar fyrir nokkrum árum.