Afmælisbörn 23. mars 2019

Ómar Valdimarsson

Afmælisbörn dagsins eru fjölmörg og eftirfarandi:

Guðrún Árný Karlsdóttir söngkona úr Hafnarfirði er þrjátíu og sjö ára í dag. Guðrún Árný sem hefur sungið frá blautu barnsbeini vakti fyrst athygli þegar hún sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna 1999 og í framhaldinu söng hún í ýmsum sýningum á Hótel Íslandi og víðar. Hún hefur verið áberandi í sönglagakeppnum eins og undankeppni Eurovision, Jólalagakeppni Rásar tvö og Landslaginu auk þess sem hún var ein Frostrósanna. Guðrún Árný hefur einnig gefið út sólóplötu, gefið út jólaplötu í félagi við aðra söngvara og sungið á plötum fjölmargra annarra listamanna.

(Valdimar) Ómar Valdimarsson sem lengi skrifaði um popptónlist í blöð er sextíu og níu ára gamall í dag. Ómar var framarlega í þjóðlagavakningunni um 1970, starfaði þá með Nútímabörnum og var í forsvari fyrir þjóðlagaklúbbinn Vikivaka um svipað leyti. Hann sendi frá sér tveggja laga plötu undir nafninu Umbi Roy og starfaði um tíma sem umboðsmaður tónlistarmanna, auk þess að starfa sem blaðmaður ritaði hann bókina Sögu Hljómar sem var fyrst sinnar tegundar hérlendis.

Eggert Pálsson pákuleikari er fimmtíu og níu ára í dag. Eggert sem nam slagverk m.a. í Austurríki hefur leikið með ýmsum tegundum hljómsveita s.s. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Keltum, Pjetri & úlfunum og Caput en hefur aukinheldur leikið á ógrynni platna annarra tónlistarmanna eins og Páls Óskars, Thin Jim, Kimono, Pólýfónkórnum og fjölda annarra.

Þá er Álfrún Helga Örnólfsdóttir leik- og söngkona þrjátíu og átta ára gömul. Hún hefur komið við sögu á fjölda platna tengdum leikhúsinu s.s. með tónlist úr leikritum eins og Fame, Abbababb, Litlu hryllingsbúðinni, Dísu ljósálfi, Gretti og Grease en hún hefur jafnframt einnig sungið á plötum annars tónlistarfólks, þar má nefna plötur Hafdísar Huldar og Margrétar Örnólfsdóttur (systur Álfrúnar).

Einnig á söngkonan Ingibjörg Smith (Stefánsdóttir) afmæli á þessum degi en hún er níræð í dag og á því stórafmæli. Ingibjörg, sem mest alla tíð hefur alið manninn í Bandaríkjunum, söng sig inn í hjörtu landsmanna með lögum eins og Nú liggur vel á mér, Oft spurði ég mömmu (Que sera sera) og Við gengum tvö, auk fleiri laga en þau hafa komið út á fjölmörgum safnplötum í gegnum tíðina.