Vilhjálmur Vilhjálmsson (1945-78)

Vilhjálmur Vilhjálmsson

Vilhjálmur Vilhjálmsson (Villi Vill) er án nokkurs vafa einn ástsælasti söngvari Íslands fyrr og síðar og frægðarsól hans skín jafn skært í dag og þegar söngferill hans stóð sem hæst. Tónlistarferill Vilhjálms stóð þó aðeins í um fimmtán ár og mætti skipta honum í tvennt með nokkurra ára hléi, annars vegar tímabilið frá 1962 til 72 þar sem hann starfaði með hljómsveitum og gaf út plötur með sér eldri tónlistarmönnum og hafði lítið um það að segja hvað hann söng undir útgáfustjórn Svavars Gests mágs sína, hins vegar tímabilið 1976 til 78 þegar hann vann með mun yngri mönnum þar sem hann réði ferðinni sjálfur og samdi m.a. eigin texta. Alls hafa komið út með Vilhjálmi sjö smáskífur og sjö sóló- og dúettaplötur, auk fjórtán safn- og minningaplatna, sem flestar hafa verið marg endurútgefnar.

Vilhjálmur Hólmar Vilhjálmsson fæddist vorið 1945 og var yngstur fimm systkina, hann var frá Merkinesi í Höfnum og fékkst lítið við tónlist af því er virðist framan af. Faðir hans, (Vilhjálmur) Hinrik Ívarsson þekkt refaskytta, hafði leikið á harmonikku á dansleikjum og sungið með, og eldri systir Vilhjálms, Elly Vilhjálms var orðin þekkt söngkona þegar hann var á unglingsaldri. Vilhjálmur sem á skólaárum sínum var iðulega kallaður Hólmar gekk í Gagnfræðiskólann í Keflavík og síðan Héraðsskólann á Laugarvatni þar sem hann lauk landsprófi, þar eignaðist hann gítar og söng í fyrsta sinni opinberlega, á skólaskemmtun.

Eftir nám á Laugarvatni var hann um skamman tíma vestur á Ísafirði en fór þaðan norður til Akureyrar til náms í menntaskólanum þar. Í MA var Vilhjálmur nokkuð virkur í félagslífinu, tók m.a. þátt í leiklistarlífinu en um áramótin 1961-62 tók hann við bassanum af Þorvaldi Halldórssyni í Busabandinu sem var hljómsveit starfandi innan skólans, Vilhjálmur hafði þá aldrei stundað neitt tónlistarnám og hafði ekki svo kunnugt er spilað á bassa fyrr. Auk bassaleikarahlutverksins var hann látinn syngja því hann var jú bróðir Elly Vilhjálms sem á þeim tíma var orðin stórstjarna í íslenskri tónlist. Busabandið lék einnig eitthvað utan skólans og gekk þá undir nafninu BB-sextett.

Hljómsveit Ingimars Eydal, Þorvaldur og Vilhjálmur í aftari röð

Vilhjálmur lauk stúdentsprófi að loknu þriggja ára námi vorið 1964, ári á undan jafnöldrum sínum en hann átti mjög auðvelt með lærdóm, um svipað leyti lagði Busabandið upp laupana. Það var mikið að gerast í lífi hans á þessum vordögum, daginn fyrir útskriftina giftist hann barnsmóður sinni (en þau höfðu þá nýverið eignast barn) og á útskriftardaginn gekk hann ásamt Þorvaldi Halldórssyni til liðs við Hljómsveit Ingimars Eydal, Vilhjálmur var þá aðeins nítján ára gamall. Næsta vetur (1964-65) kenndi hann ensku við Gagnfræðiskólann á Akureyri og var í aukastarfi sem blaðamaður við Dag, samhliða því sinnti hann spilamennsku með hljómsveit Ingimars í Sjallanum og víðar. Vilhjálmur lék á bassa og þótti fljótlega liðtækur sem slíkur en einnig sungu þeir Þorvaldur með sveitinni, með þeim tókst góður vinskapur enda voru þeir á sama aldri á meðan aðrir meðlimir sveitarinnar voru töluvert eldri.

Sumarið 1965 gerði Ingimar Eydal samning fyrir hönd hljómsveitar sinnar um tvær fjögurra laga plötur við Svavars Gests sem þá hafði nokkrum mánuðum fyrr stofnað útgáfufyrirtækið SG-hljómplötur, en Svavar var þá nýgiftur Elly systur Vilhjálms og því orðinn mágur hans. Þegar hljómsveitin kom suður og lék síðsumars í Glaumbæ notuðu þeir félagar tækifærið og tóku upp plöturnar tvær en þetta var frumraun söngvaranna beggja við upptökur og plötuútgáfu.

Fyrri platan kom út um haustið og sló samstundis í gegn en þar var m.a. að finna stórsmellinn Á sjó sem Þorvaldur söng og svo lagið Litla sæta ljúfan góða, sungið af Vilhjálmi, þeir félagarnir urðu samstundis landsþekktir fyrir framlag sitt og platan seldist í bílförmum og varð þá söluhæsta litla platan á Íslandi frá upphafi. Vilhjálmur hafði á þessum tímapunkti ákveðið að flytja suður til háskólanáms og var því hættur í hljómsveit Ingimars þegar síðari platan kom út fljótlega á nýju ári 1966, en þar voru ekki síðri stórsmellir frá Vilhjálmi á ferð, Raunasaga og Vor í Vaglaskógi.

Þorvaldur Halldórsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson

Vilhjálmur hóf nám í lögfræði við Háskóla Íslands sem hann hætti fljótlega í en færði sig yfir í læknisfræðina, þar var hann um tíma. Hann hóf hins vegar að leika og syngja með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar sem þá hafði ráðið sig á Röðli og þar átti hann eftir að vera næstu misserin, samtímis honum byrjaði söngkonan Anna Vilhjálms að syngja með sveitinni. Sveitin fór í upptökur í Útvarpshúsinu sem þá var nánast eina aðstaðan til plötuupptöku hér á landi, og tók upp fjögur lög sem þau Anna sungu, þar bar hæst lagið Það er bara þú sem varð til að festa Vilhjálm í sessi sem einn af fremstu dægurlagasöngvurum landsins. Þetta sama vor, 1966 kom út plata með úrslitalögum Danslagakeppni Útvarpsins og þar var Vilhjálmur meðal flytjenda og söng lagið Bréfið en það lag náði ekki mikilli athygli.

Það var sammerkt sveitunum tveimur, Ingimars Eydal og Magnúsar Ingimarssonar, að Vilhjálmur var þar að starfa með mun eldri tónlistarmönnum og tónlistin höfðaði því til mun eldri markhóps en aldur hans benti til, á sama tíma voru jafnaldrar hans í Hljómum og Dátum að leika tónlist fyrir allt annan aldurshóp.

Um sumarið 1966 lék hljómsveit Magnúsar á héraðsmótum sjálfstæðisflokksins víða um landsbyggðina en næsta vetur var hún aftur fastráðin á Röðli við miklar vinsældir. Marta Bjarnadóttir hafði leyst Önnu söngkonu af þegar sú síðarnefnda þurfti að hætta vegna barneigna en árið 1967 kom ný söngkona, Þuríður Sigurðardóttir inn í sveitina en hún var þá aðeins átján ára. Sveitin lék aftur á héraðsmótum það sumar en um það leyti sem hún var að byrja aftur á Röðli kom önnur fjögurra laga plata út með henni með Þuríði og Vilhjálmi í sönghlutverkum, þar bar hæst lagið S.O.S. ást í neyð sem varð mjög vinsælt.

Vilhjálmur og Anna Vilhjálms

Mikið álag var á Vilhjálmi á þessum tíma, hann hætti í háskólanáminu og stóð í skilnaði en auk þess greindist hann með magasár vegna álagins. Sumarið 1968 hóf hann flugnám og var þá um það leyti einnig kominn í bréfaskólanám í dáleiðslu samhliða spilamennskunni. Önnur lítil plata kom út með Vilhjálmi og hljómsveit Magnúsar árið 1969 en Þuríður kom þar ekki nærri, á þeirri plötu voru lögin Hún hring minn ber og Árið 2012, sem bæði urðu feikivinsæl. Þetta var fyrsta platan sem kom út í nafni Vilhjálms en fyrri plöturnar höfðu verið undir hljómsveitunum og söngvurum þeirra, hún hlaut fínar viðtökur blaðaskríbenta, þokkalega dóma í Tímanum og ágæta í Morgunblaðinu.

Þá hafði Svavar Gests viðrað þá hugmynd við systkinin Elly og Vilhjálm að gefa út plötu með þeim saman en þau höfðu þá í sitt hvoru lagi átt tvær söluhæstu litlu plöturnar sem komið höfðu út hér á landi, platan sem var tólf laga var hljóðrituð af Knúti Skeggjasyni í Ríkisútvarpinu um sumarið 1969 og fékk titilinn Systkinin Vilhjálmur og Elly syngja saman, Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar lék undir á þeirri plötu einnig og útsetti Magnús jafnframt tónlistina auk þess að stjórna kór. Þessi fyrsta stóra plata þeirra kom út um haustið og hlaut hvarvetna fínustu dóma og vinsældir og seldist mjög vel eða í um sjö þúsund eintökum, hún var marg endurútgefin og prentuð með að minnsta kosti ferns konar mismunandi umslögum. Meðal laga á þessari fyrstu plötu þeirra systkina voru lögin Ramóna, Fátt er svo með öllu illt, Heimkoma og Ég fer í nótt, sem öll nutu mikilla vinsælda og hafa orðið sígild í íslensku tónlistarlífi.

Bassaleikarinn Vilhjálmur

Um þetta leyti hafði Vilhjálmur yfirgefið hljómsveit Magnúsar og gengið til liðs við Sextett Ólafs Gauks en í millitíðinni (sumarið 1969) starfaði hann um tveggja mánaða skeið með Haukum sem lék mikið í Glaumbæ og fyrir mun yngri dansleikjagesti. Aðdragandi þess að hann hóf að leika með Ólafi Gauki var stuttur en Rúnar Gunnarsson söngvari og bassaleikari hafði hætt skyndilega rétt fyrir fyrirhugaðan tveggja mánaða Þýskalandstúr sveitarinnar, Vilhjálmur stökk því til og greip tækifærið og sá um leið möguleika á að leita sér atvinnutækifæra í fluginu í Þýskalandi en hann hafði þá lokið atvinnuflugmannsprófi. Vilhjálmur hafði þá gifst í annað sinn. Hann lék með sextett Ólafs Gauks til vorsins 1970 en hætti þá skyndilega þegar hann fékk tilboð um flugstarf á vegum flugfélagsins Luxair í Lúxemborg. Þar með má segja að hljómsveitaferli Vilhjálms hafi lokið en hann átti ekki eftir að starfa með hljómsveitum aftur eftir þessa átta ára svo gott sem stanslausu dansleikjatörn.

Vilhjálmur hafði þó alls ekki sagt alveg skilið við íslenskt tónlistarlíf og áður hafði hann tekið upp tvær stórar plötur með Elly systur sinni. Annars vegar var um að ræða plötu þar sem þau systkinin sungu lög eftir Sigfús Halldórsson sem um haustið 1970 fagnaði fimmtugs afmæli, sú plata hét einfaldlega Vilhjálmur og Elly Vilhjálms syngja kunnustu lög Sigfúsar Halldórssonar og hafði að geyma mörg af hans þekktustu lögum s.s. Litla flugan, Íslenskt ástarljóð, Tondeleyó, Vegir liggja til allra átta, Lítill Fugl, Dagný og Við eigum samleið sem þarna heyrðust í nýstárlegum útsetningum Jóns Sigurðssonar sem einnig stjórnaði hljómsveit sem m.a. innihéldu blásara- og strengjasveit.

Hin platan var einnig hálfgildings afmælisplata en hún hafði að geyma lög eftir Freymóð Jóhannsson sem hélt upp á sjötíu og fimm ára afmæli sitt, sú plata hlaut titilinn Vilhjálmur og Elly Vilhjálms syngja lög eftir Tólfta september, sem var einmitt listamannsnafn hans og vísaði til afmælisdags hans. Lög eins og Draumur fangans, Þú ert vagga mín haf, Bergmál hins liðna, Halló og Frostrósir voru meðal laga á plötunni sem færði eins og hin fyrri, útgefandanum fúlgur fjár í formi plötusölu. Jón Sigurðsson stjórnaði einnig hljómsveitinni á þessari plötu sem og annaðist útsetningar, og hlutu þær báðar prýðilega dóma í Vikunni og góðar almennar viðtökur þegar þær komu út um haustið 1970. Báðar plötunar hafa fyrir margt löngu hlotið klassískan sess í íslenskri tónlistarsögu og þ.a.l. margoft verið endurútgefnar.

Vilhjálmur Vilhjálmsson

Vilhjálmur fluttist til Lúxemborgar þar sem hann starfaði um skeið, hann kom þó reglulega heim til Íslands í fríum og í slíkri heimsókn voru tekin upp fjögur lög sem komu út á tveimur plötum árið 1971, annars vegar í mars (Myndin af þér / Einni ég ann þér) og hins vegar í september (Hlustið á mig / Allt er breytt). Sú nýbreytni var nú höfð að hljóðfæraleikurinn var keyptur frá Englandi en söngurinn var tekinn upp hér á landi af Pétri Steingrímssyni tæknimanni útvarpsins, flest laganna náðu miklum vinsældum og héldu nafni Vilhjálms á lofti þótt hann væri búsettur erlendis og fylgdi plötunum ekkert eftir. Einnig var tekin upp jólaplata með þeim systkinum, Vilhjálmi og Elly en hún kom út fyrir jólin 1971 og hlaut titilinn Vilhjálmur og Elly Vilhjálms syngja jólalög. Enn var það Jón Sigurðsson sem stjórnaði hljómsveitarundirleiknum og útsetningum en platan náði strax miklum vinsældum og hefur verið endurútgefin margsinnis síðan, þetta varð fjórða plata systkinanna.

Í kjölfar velgengninnar fékk Svavar Vilhjálm til að syngja næst inn á stóra plötu sem yrði þá fyrsta sólóplata hans en fram að því hafði hann einungis sungið inn á litlar plötur og á stórar plötur með systur sinni. Platan var síðan tekin upp um veturinn í Tannlæknasalnum svokallaða en fram til þessa höfðu plöturnar verið teknar upp í Ríkisútvarpinu sem fyrr segir. Platan var tólf laga og hlaut nafnið Glugginn hennar Kötu eftir einu laganna, og kom út síðar það ár, 1972. Vilhjálmur hafði nú í fyrsta sinn nokkuð um það að segja hvaða efni væri á plötunni, lögin voru flest erlend en Iðunn Steinsdóttir átti um helming textanna. Platan fékk prýðisgóða dóma í Morgunblaðinu og lagið Bíddu pabbi varð stórsmellur hennar, einnig varð lagið Angelía nokkuð vinsælt en Dúmbó og Steini höfðu gefið það út árið 1968. Hún var síðan endurútgefin undir titlinum Bíddu pabbi og fleiri lög. Glugginn hennar Kötu varð síðasta platan sem SG-hljómplötur gáfu út með Vilhjálmi en í kjölfar útgáfu hennar kom upp ósætti milli þeirra Svavars en Vilhjálmi þótti heldur halla á sig þegar kom að greiðslum fyrir plöturnar. Svavar vísaði í samninga sem þeir höfðu gert og eftir það var ekki aftur snúið, samstarfi þeirra mága var lokið eftir útgáfur sjö smáskífa og fimm breiðskífa.

Mynd sem síðar var máluð aftan á „Með sínu nefi“

Vilhjálmur var lítið á Íslandi eftir þetta næstu árin, hann kom þó heim um vorið 1973 og söng þá í sjónvarpsþætti, í þeirri sömu ferð tók hann einnig lagið með Stuðlatríóinu og Næturgölunum – tveimur pöbbaböndum sem spiluðu mestmegnis gömlu dansana.

Sumarið 1973 gáfu SG-hljómplötur út án vitundar Vilhjálms safnplötuna Fjórtán vinsæl lög en sú plata hafði að geyma lög Vilhjálms sem komið höfðu út á smáskífunum. Sú plata var reyndar endurútgefin að minnsta kosti tvívegis og var aldrei með samskonar plötuumslagi, bar jafnvel annan titil síðar – Fjórtán fyrstu lögin.

Á þessum árum átti Vilhjálmur nokkuð í erfiðleikum í einkalífinu og hans annað hjónaband endaði með skilnaði, þá voru veikindi enn að plaga hann og á ráðstefnu sem hann var staddur á á vegum Luxair í Venesúela sprakk maginn í honum og í kjölfarið fór hann í bráðaaðgerð þar sem fjarlægja þurfti þrjá fjórðu maga hans. Vilhjálmur lenti tvisvar í hjartastoppi á skurðarborðinu og var hann heppinn að sleppa lifandi frá þeirri aðgerð.

Vilhjálmur var um tíma lítið í sviðsljósinu en komst aftur í fréttir hér heima um vorið 1975 þegar nýtt og öflugt hljóðver var opnað í Hafnarfirði undir nafninu Hljóðriti en hann var þar meðal eigenda. Í kjölfarið var hann nokkuð með annan fótinn hér heima og svo fór að hann fluttist heim til Íslands m haustið. Meðal þeirra fyrstu sem tóku upp í Hljóðrita haustið 1975 voru félagarnir Magnús Eiríksson og Pálmi Gunnarsson sem þá voru að vinna plötu í nafni hljómsveitar sem hafði gengið undir ýmsum nöfnum en hlaut að lokum nafnið Mannakorn eftir plötunni sem þarna var verið að taka upp. Svo fór að Vilhjálmur söng þrjú lög sem gestur á þeirri plötu sem kom út í upphafi árs 1976 en hann hafði þá ekki sungið í hljóðveri síðan veturinn 1971-72. Þetta voru lögin Einbúinn, Sjómannavísa og Í rúmi og tíma en öll lögin þrjú hafa lifað góðu lífi allt til þessa dags. Vilhjálmur minnti svo heldur betur á sig í sjónvarpsþætti sem sýndur var um jólin 1975 þar sem hann söng með gömlu félögum sínum í Hljómsveit Ingimars Eydal.

Þessi óvænta endurkoma kom Vilhjálmi heldur betur á kortið aftur eftir þriggja ára hlé og varð honum hvatning til að hefja vinnu við sólóplötu, þeirri fyrstu sem hann héldi sjálfur alveg um stjórnvölinn hvað varðar lagaval og aðra vinnu. Það varð úr að hann hafði samband við Kristján frá Djúpalæk en þeir höfðu verið kollegar á Akureyri um áratug fyrr þar sem Vilhjálmur hafði starfað sem blaðamaður á Degi en Kristján á Verkamanninum, hann sagði frá því í blaðaviðtali að þeir hefðu stundum orðið samferða á blaðamannafundi í leigubíl og með þeim tekist góður vinskapur. Kristján tók vel í bón Vilhjálms um textasmíðar enda hafði hann áhuga á að tengja ljóð sín við dægurlög. Það varð því úr að platan innihélt lög úr ýmsum áttum en textarnir voru allir eftir Kristján. Um sama leyti sagði hann líka í blaðaviðtali að hann væri nú loksins að vinna tónlist sem hann langaði að vinna sem sýnir að hann var ekki endilega alltaf sáttur við það sem hann hafði sungið fram að því – og skaut þá um leið fast á Svavar mág sinn. Platan var auðvitað tekin upp í Hljóðrita en Gunnar Þórðarson var upptökustjóri, fjöldinn allur af kunnum tónlistarmönnum kom að upptökunum og var Magnús Kjartansson þar fremstur í flokki. Platan kom út snemma um haustið 1976 undir titlinum „Með sínu nefi“: Ljóð og textar eftir Kristján frá Djúpalæk og fékk glimrandi móttökur gagnrýnenda, frábæra dóma í Vísi og mjög góða í Æskunni, flest laganna á henni urðu vinsæl og heyrast enn reglulega spiluð í útvarpi s.s. Hrafninn, Einu sinni var, Svefnljóð, Pólstjarnan, Þórður sjóari og Dans gleðinnar, enda höfðaði tónlistin mun betur til yngri hlustenda en á fyrri plötum hans, Fálkinn gaf plötuna út. Þess má geta að löngu síðar nýtti rappsveitin XXX Rottweiler hundar sér píanóstef í síðasta lagi plötunnar Síðasta lag fyrir fréttir, í lagi sínu Bent nálgast og kannast margir við þá útgáfu.

Flugmaðurinn Villi Vill

Vilhjálmur hafði um sumarið einnig sungið einsöng á plötu Söngflokks Eiríks Árna í laginu Allir eru að tala um mig en það fór ekki hátt enda hafði hann óskað eftir því að það kæmi hvergi fram. Hann fór nú að koma meira fram t.d. í sjónvarpi auk þess að syngja opinberlega á sviði en var þó ekki starfandi með hljómsveit. Aðalstarf Vilhjálms hér heima var þó flugið og á þessum tíma var hann farinn að fljúga hjá Sverri Þóroddssyni auk þess að kenna við Flugskóla Helga Jónssonar, og var töluvert að gera hjá honum í því, hann hafði síðan gift sig í þriðja sinni sumarið 1976.

Fljótlega eftir áramótin 1976-77 hóf Vilhjálmur vinnu við gerð nýrrar plötur í Hljóðrita enda varð velgengni „Með sínu nefi“ honum hvatning til frekari verka. Í þessa sinn samdi hann alla texta sjálfur en hann hafði alla tíð fengist nokkuð við ljóðagerð (átti þá texta á plötu Júdasar, Eins og fætur toga), og jafnvel lagasmíðar einnig sem áttu þó að bíða betri tíma. Lög plötunnar komu hins vegar úr ýmsum áttum og hafði hann þann hátt á að senda nokkrum kunnum lagasmiðum texta sína og áttu þeir að semja lög við textana, því komu allt að sex ný lög við hvern texta en Vilhjálmur valdi í samstarfi við félaga sína bestu útkomurnar. Hann fór nú í samstarf við Magnús Kjartansson og Jón Ólafsson (síðar kenndan við Skífuna) og gaf út plötuna undir merkjum Hljómplötuútgáfunnar (áður hljómplötuútgáfunnar Júdasar) um vorið 1977.

Platan fékk heitið Hana nú og enn komu stórsmellirnir einn af öðrum, Ég labbaði í bæinn, Þú átt mig ein, Það er svo skrítið, Jamaica (sem er eitt allra fyrsta íslenska reggae-lagið) og Einshljóðfærissinfóníuhljómsveitin urðu öll feikivinsæl en óhætt er að segja að lögin Lítill drengur og Söknuður hafi sprengt alla skala hvað vinsældir varða, síðarnefnda lagið var tileinkað vini Vilhjálms, Jóni Heiðberg sem hafði látist eftir þyrluslys á hálendi Íslands fáeinum mánuðum fyrr. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum, Tímanum og Dagblaðinu og má hæglega færa að því rök að þarna hafi Vilhjálmur náð toppnum á sínum tónlistarferli, Vilhjálmur sem textahöfundur vakti ekki síður athygli en söngvarinn Vilhjálmur. Þess má geta að þegar platan var kynnt á blaðamannafundi mætti Vilhjálmur með hana, sem var þá auðvitað vísun í titil plötunnar Hana nú. Platan hefur margoft verið endurútgefin og þá með mismunandi plötu-umslögum, hún hefur selst í yfir tuttugu þúsund eintökum. Vilhjálmur hafði léð Söngflokki Eiríks Árna rödd sína eins og fyrr er greint en á móti kom söngflokkurinn við sögu í laginu Einshljóðfærissinfóníuhljómsveitinni með undirtektar- og áheyrendahljóð, það lag hefur oft verið nefnt sem hálfgerður stílbrjótur á plötunni.

Vilhjálmur Vilhjálmsson

Þetta sama sumar (1977) söng Vilhjálmur inn á jólaplötuna Jólastrengir sem síðar varð mjög vinsæl, og um svipað leyti söng hann einnig inn á plötu Ruthar Reginalds (og fleiri) en báðar þær plötur voru gefnar út á vegum Hljómplötuútgáfunnar sem Vilhjálmur var nú orðinn einn eigenda að ásamt Magnúsi og Jóni, hann var einnig meðal eigenda Hljóðrita eins og fyrr er greint. Hann samdi einnig texta fyrir plötu Ruthar sem og fyrir Björgvin Halldórsson sem þá var að vinna að sólóplötunni Ég syng fyrir þig, það var lagið Skýið sem Björgvin tileinkaði síðar Vilhjálmi.

Stereo-tæknin var nú komin til landsins og Vilhjálmur hafði í hyggju að endurvinna og endurútgefa gömlu lögin sín með stereo-upptökutækninni og þá jafnvel í nýjum útgáfum en úr því varð aldrei þar sem forlögin gripu í taumana. Um haustið 1977 fór hann að vinna fyrir Arnarflug og m.a. í Kenya í Afríku þótt hann væri alfluttur hingað heim. Það var svo í lok mars 1978 þegar hann var staddur í Lúxemborg í verkefni fyrir flugfélagið að hann lenti í bílslysi þar í landi og beið samstundis bana er hann ók á tré. Þetta var mikið áfall og harmdauði fyrir íslenskt tónlistarlíf og reyndar alla þjóðina því hann var sem fyrr segir líklega á tindi tónlistarferils síns, hann átti auk þess þriggja vikna gamla dóttur þegar hann lést. Vilhjálmur varð aðeins þrjátíu og þriggja ára gamall.

Tónlist Vilhjálms hefur þó lifað frá því að hún varð til og til dagsins í dag, og fjölmargar endurútgáfur og safnplötur hafa litið dagsins ljós eftir andlát hans. Plötur hans voru endurútgefnar af SG-hljómplötum, Fálkanum og Hljómplötuútgáfunni og síðar þegar útgáfurétturinn var allur kominn undir sama hatt sáu Skífan, Sena og nú síðast Alda music um útgáfuna.

Árið 1980 kom út safnplatan Manni með Vilhjálmi en hún hafði að geyma lög með honum auk þess sem eitt nýtt lag leit dagsins ljós, titllagið Manni sem hafði verið tekið upp áður en Vilhjálmur lést en ekki komist á síðustu plötuna. Fjórum árum síðar gaf SG-hljómplötur út plötu sem bar heitið Fundnar hljóðritanir, þar var að finna upptökur úr fórum Ríkisútvarpsins þar sem Vilhjálmur söng lög við undirleik Hljómsveitar Magnúsar Ingimarssonar en lögin höfðu verið leikin í útvarpsþáttum árin 1966 og 67.

Vilhjálmur ásamt eiginkonu sinni 1977

Árið 1990 var sett á svið tónlistarsýning í Glaumbergi í Keflavík tileinkuð Vilhjálmi en hún var undir tónlistarstjórn Magnúsar Kjartanssonar, söngvarar eins og Þorvaldur Halldórsson, Ruth Reginalds, Björgvin Halldórsson og Elly Vilhjálms sungu í sýningunni en Hermann Gunnarsson var kynnir.

Á tíunda áratugnum komu út nokkrar safnplötur tileinkaðar Vilhjálmi, 1991 komu út plöturnar Við eigum samleið og Í tíma og rúmi, og 1997 kom síðan út platan Bergmál hins liðna með lögum sem Vilhjálmur og Elly Vilhjálms sungu saman. Árið 1998 voru tveir áratugir liðnir frá andláti Vilhálms og þá sendi Skífan frá sér ellefu laga heiðursplötuna Söknuður: Vilhjálmur Vilhjálmsson, þar sem ýmsir af fremstu söngvurum þjóðarinnar sungu lög sem hann hafði gert vinsæl. Þeirra á meðal má nefna Helga Björnsson sem söng Ég fer í nótt, hljómsveitina Sóldögg með lagið Bíddu pabbi og Stefán Hilmarsson með Hrafninn sem öll nutu nokkurra vinsælda og urðu til að vekja athygli nýrra kynslóða á lögum Vilhjálms, lokalag plötunnar var svo með Vilhjálmi sjálfum en það var lagið Dans gleðinnar sem þá var búið að endurvinna að hluta, bæta við og auka, af Mána Svavarssyni (syni Svavars Gests og Elly) og Halli Ingólfssyni. Dans gleðinnar, tvöföld safnplata kom síðan út 1999 og var vandaðasta safnplatan sem þá hafði verið unnin með lögum Vilhjálms en þar ritaði Jónatan Garðarsson ítarlegt ágrip af sögu hans.

Á nýrri öld hafa komið út nokkrar safnplötur í viðbót með lögum Vilhjálms, plata tileinkuð honum kom t.a.m. út í safnplöturöðinni Brot af því besta árið 2005 og 2007 kom út þreföld safnplata undir heitinu Bestu lög Vilhjálms Vilhjálmssonar. Árið 2008 var Vilhjálmi enn gert hátt undir höfði með ýmsum hætti en þá voru þrjátíu ár liðin frá bílslysinu í Lúxemborg, um vorið hélt Friðrik Ómar Hjörleifsson heiðurstónleika í Salnum undir merkjum Rigg og varð að bæta við fjölmörgum aukatónleikum áður en yfir lauk, Friðrik Ómar sjálfur, Guðrún Gunnarsdóttir, Pálmi Gunnarsson og fleiri komu þar við sögu. Þau herlegheit voru gefin út um haustið undir titlinum Í minningu Vilhjálms Vilhjálmssonar, sem var sama yfirskrift og tónleikaröðin hafði borið. Um þetta leyti fannst upptaka með lagi sem Vilhjálmur hafði sungið rétt fyrir andlátið og hafði orðið afgangs þegar Hana nú var unnin, lagið var gefið út skömmu síðar undir nafninu Tölum saman, á viðhafnarútgáfu plötunnar Hana nú sem innihélt þá einnig lagið Manni. Síðsumars þetta sama ár stóð Sena fyrir stórum tónleikum í Laugardalshöll undir tónlistarstjórn Magnúsar Kjartanssonar þar sem fram komu m.a. Páll Rósinkrans, Eyjólfur Kristjánsson, Stefán Hilmarsson og margir fleiri, þar kom einnig fram Jóhann Vilhjálmsson sonur Vilhjálms en Þórir Baldursson stjórnaði stórri hljómsveit, eins og tónleikar Friðriks Ómars þurfti að margendurtaka þá, þvílíkar voru vinsældirnar og eftirspurnin. Þeir tónleikar voru gefnir út um haustið á geisladisk og dvd undir nafninu Minningartónleikar Vilhjálms Vilhjálmssonar, og seldust í yfir ellefu þúsund eintökum. Árið 2015 kom enn ein safnplatan út, Við eigum samleið: 40 vinsælustu lög Villa Vill.

Vilhjálmur árið 1976

Eins og lesa má af ofangreindu er Vilhjálmur Vilhjálmsson ein af skærustu stjörnum íslenskrar tónlistarsögu, fyrst og fremst söngvari en einnig liðtækur bassaleikari og textasmiður. Því miður fengum við ekki að njóta lagasmíða hans og ljóst er miðað við hvernig hann þróaðist sem tónlistarmaður að hann hefði getað orðið enn stærra nafn en ella. Andlát hans bar að með svo skjótum hætti að hann hlaut í lifanda lífi aldrei þá virðingu eða viðurkenningu sem hann átti skilið nema í formi plötusölu og orðspors, tuttugu og átta útgefnar plötur plötur hljóta þó að segja eitthvað um stöðu hans.

Minning Vilhjálms hefur verið heiðruð með ýmsum hætti, fyrst er þess að geta að fyrsta lagið sem leikið var á Rás 2 þegar hún tók til starfa haustið 1983 var Ég labbaði í bæinn af plötunni Hana nú, sem var auðvitað ákveðinn virðingarvottur. Í tónlistaruppgjöri utan um tónlist 20. aldarinnar við aldamót var Vilhjálmur kjörinn söngvari aldarinnar og var tilkynnt um þau úrslit á Íslensku tónlistarverðlaununum, þá var hann einnig kjörinn söngvari aldarinnar í netkosningu hjá Vísi.is í lok aldar. Margir tónlistarþættir hafa verið gerðir um tónlist Vilhjálms og einnig ritaði Jón Ólafsson tónlistarmaður ævisögu hans undir titlinum Söknuður, en hún kom út árið 2009.

Enn er ógetið ógrynni safnplatna sem stök lög Vilhjálms (og Elly) hafa komið út á en þær skipta mörgum tugum eða jafnvel hundruðum.

Efni á plötum