Andlát – Atli Heimir Sveinsson (1938-2019)

Atli Heimir Sveinsson

Atli Heimir Sveinsson tónskáld er látinn, rúmlega áttræður að aldri. Allir þekkja nafn Atla Heimis og margir verk hans sem eru af afar ólíkum toga, allt frá einföldum söng- og kórlögum sem allir kunna að meta, til ómstríðra nútímaverka sem eru ekki allra. Í flórunni má einnig kenna allt þar á milli, óperur, sinfóníur, kórverk, kammerverk, leikhústónlist og þannig mætti áfram telja.

Atli Heimir hóf að læra á píanó aðeins níu ára gamall í Barnamúsíkskóla dr. Heinz Edelstein en þaðan lá leiðin í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hann nam hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni. Að loknu stúdentsnámi 1958 fór hann til Kölnar í Þýskalandi þar sem hann fór í framhaldsnám í píanóleik en nam þar einnig hljómsveitastjórnun, tónsmíðar og tónfræði. Að loknu því námi (1963) nam hann raftónlist í Hollandi og varð síðan einn af frumkvöðlum í þeim geira þegar hann kom heim til Íslands að loknu námi um miðjan sjöunda áratuginn. Hér heima varð hann strax áberandi í starfi Musica nova sem var vægast sagt umdeildur félagsskapur en tónsmíðar urðu síðan hans aðalsmerki þótt aðrar hliðar tónlistarinnar kæmu einnig mikið við sögu.

Atli Heimir samdi mikið af svokallaðri nútímatónlist, og eftir hann liggja m.a. tíu einleikskonsertar, sex sinfóníur, fimm óperur (m.a. Silkitromman og sjónvarpsóperan Vikivaki), og einleiks- og kammerverk einnig (m.a. balletóratorían Tíminn og vatnið við samnefnt ljóð Steins Steinarr). Þá samdi hann tónlist fyrir leikhús (Dimmalimm, Ofvitinn, Sjálfstætt fólk og Land míns föður) sem og fjölda söng- og kórlaga (Kvæðið um fuglana (snert hörpu mína…), Kisa mín, Klementínudans o.fl.), og margt fleira.

Verk hans má því heyra á tugum ef ekki hundruðum útgefnum plötum, margar þeirra platna eru beinlínis helgaðar tónlist Atla Heimis s.s. plötur Kammersveitar Reykjavíkur, Atli Heimir Sveinsson: Tíminn og vatnið, Atli Heimir Sveinsson: Á gleðistundu og Atli Heimir Sveinsson: I call it, plötur Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Atli Heimir Sveinsson: Concert for flute and orchestra og Atli Heimir Sveinsson: Portrait, auk platna Áshildar Haraldsdóttur (Tónamínútur / Complete works for flute), Hyperion trios (Atli Heimir Sveinsson: Piano trios 1-3), Einars Jóhannessonar (Þér hlið, lyftið höndum yðar / 24. Davíðssálmur: Hugleiðsluverk fyrir klarinett eftir Atla Heimi Sveinsson), Hamrahlíðarkórsins (Haustmyndir: Hamrahlíðarkórinn flytur verk eftir Atla Heimi Sveinsson), Eddu Heiðrúnar Backman og gesta (Fagur fiskur í sjó) og Jónasarlög og Íslands minni, sem eru safnplötur er hafa að geyma lög Atla Heimis við ljóð Jónasar Hallgrímssonar. Þá eru stök verk og lög Atla Heimis að finna á fjölmörgum öðrum plötum s.s. með Duo Landon, Kór Langholtskirkju, Áshildi Haraldsdóttur, Jónasi Ingimundarsyni, Rögnvaldi Sigurjónssyni, Ýli, Susanne Kessel, Sólrúnu Bragadóttur, Pétri Jónassyni og Caput, Hallveigu Rúnarsdóttur, Rut Ingólfsdóttur og ógrynni annarra tónlistarmanna og -hópa.

Atli Heimir

En lífstarf Atla Heimis sneri ekki eingöngu að tónsmíðum eins og fyrr er greint, hann fékkst við tónlistarkennslu við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hann kenndi m.a. Kjartani Ólafssyni, Jónasi Þóri Þórissyni og Hauki Tómassyni tónsmíðar, og þá kenndi hann einnig tónlist við Menntaskólann í Reykjavík. Þá er píanóleik hans að finna á fjölmörgum plötum, sem og útsetningar og hljómsveitastjórnun. Hann fékk ennfremur við dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið og vann að ýmsum félagsstörfum tónlistarmanna, var t.d. formaður Tónskáldafélags Íslands, formaður Norræna tónskáldaráðsins, hélt utan um og stofnaði til ýmissa tónlistarviðburða s.s. Myrka músíkdaga og Norrænna músíkdaga.

Þá hlaut Atli Heimir fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín í þágu tónlistarinnar, hann varð t.d. fyrstur Íslendinga til að hljóta tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs, hlaut L‘ordre du merite culturel – verðlaunin í Póllandi og hefur verið kjörinn heiðursfélagi, gestakennari og staðartónskáld við fjölmörg tilefni og tækifæri víða um lönd. Honum var gert hátt undir höfði á raftónlistarhátíðinni Erkitíð sem haldin var í nokkur skipti og einnig má nefna að hann naut virðingar yngri tónlistarmanna þegar menn voru að gera tilraunir með tónlist á fyrri hluta áttunda áratugarins, þá flutti hippahljómsveitin Náttúra m.a. verk eftir hann.

Öllum er ljóst að með Atla Heimi Sveinssyni er fallinn frá merkur maður í íslensku tónlistarlífi og -sögu, fyrst og fremst tónskáld sem þó gat brugðið sér í allra kvikinda líki enda geta allir fundið í tónlist hans eitthvað við sitt hæfi, og tónlist hans mun lifa áfram.