Marz bræður (1954-56)

Marz bræður

Söngkvartettinn Marz bræður naut vinsælda um miðjan sjötta áratug síðustu aldar, þeir komu fram á tónlistartengdum skemmtunum og komu við sögu á nokkrum plötum.

Það var tónlistarmaðurinn Magnús Ingimarsson sem stofnaði Marz bræður ásamt Ásgeiri Sigurðssyni en þeir fengu til liðs við sig vini sína, Vilhjálm B. Vilhjálmsson og Sigurð Sívertsen og hófu æfingar. Fljótlega komu þeir fram á jólakabaraett (í desember 1953) og um vorið 1954 á miðnæturskemmtun í Austurbæjarbíói, oft var Magnús þá vopnaður gítar og lék undir söngnum.

Þeir félagar urðu þegar nokkuð þekktir og vinsælir og um sumarið gáfu Íslenzkir tónar út tveggja laga plötu með þeim við undirleik Tríós Eyþórs Þorlákssonar, sem á voru lögin Hanna litla og Segl ber hann til þín. Kvartettinn söng heilmikið á skemmtistaðnum Röðli um sumarið og síðan tóku við blandaðri skemmtanir um haustið, þar skemmtu þeir oftsinnis ásamt Ingibjörgu Þorbergs og kom út plata með þeim saman í febrúar 1955. Reyndar var þeirri plötu ekki fylgt eftir þar sem Magnús hafði veikst um haustið og Marz bræður störfuðu ekki í heilt ár eða þar til í nóvember 1955.

Marz bræður komu sjaldan fram opinberlega eftir það en önnur plata ásamt Ingibjörgu Þorbergs leit dagsins ljós 1956.

Lög Marz bræðra hafa verið endurútgefina á safnplötum s.s. Aftur til fortíðar-seríunni, Svona var… -seríunni, Stóru bílakassettunni o.fl. og einnig gaf plötusafnarinn Sigurjón Samúelsson frá Smyrlabjörgum út eins konar safnplötu með Ingibjörg og Marz bræðrum en hann hafði yfirfært efnið af 78 snúninga plötum. Ekki liggur fyrir hver titill þeirrar safnplötu var en hún var gefin út í takmörkuðu upplagi.

Efni á plötum