María Markan (1905-95)

María Markan

Óperusöngkonan María Markan var stórstjarna á íslenskan mælikvarða þótt söngferill hennar yrði nokkuð endasleppur, hún varð fyrst Íslendinga til að syngja í Metropolitan í New York og söng víða um heim við góðan orðstír.

María Einarsdóttir Markan fæddist í Ólafsvík sumarið 1905 og var yngst sjö systkina. Fjölskyldan, sem flutti til Reykjavíkur árið 1910 var söngelsk og þrjú systkini Maríu, Einar, Sigurður og Elísabet urðu þekkt söngfólk, og má heyra söng þeirra allra á plötum. Ennfremur er fjöldi tónlistarfólks komið af þeim systkinum. Mikið var sungið á heimili þeirra systkina en framan af var María í hlutverki undirleikara fyrir þau fremur en söngvara þar sem hún hafði lært á píanó síðan hún var átta ára, það var í raun ekki fyrr en hún var komin vel á unglingsaldur að sópranrödd hennar og hæfileikar uppgötvuðust. Auk þess að syngja með systkinum sínum var hún í kór Kvennaskólans í Reykjavík á þeim árum. María mun einnig hafa samið sönglög sjálf en ekki liggja fyrir upplýsingar um þau eða hvort einhver þeirra hafi verið gefin út á plötum eða nótum.

María hafði ætlað sér að nema hjúkrun en sönghæfileikar hennar urðu til þess að hún fór ásamt Einari bróður sínum til Noregs þar sem hann bjó og starfaði, eftir að hafa leikið undir með honum í tónleikaröð sem hann hélt hér á landi en frá Noregi var ferðinni haldið til Þýskalands í árslok 1927 þar sem hún hóf söngnám eftir áramótin, þá hafði hún sjálf sungið ásamt öðrum söngvurum á tónleikum hér heima árið 1926.

Næstu árin dvaldi María við söngnám í Berlín en kom stöku sinnum heim til Íslands í fríum, þá hafði hún þegar sungið inn á sína fyrstu plötu ásamt Einari bróður sínum. Ekki liggja fyrir upplýsingar hvar sú plata var tekin upp en hún var gefin út af Hljóðfærahúsi Reykjavíkur. María hélt sína fyrstu einsöngstónleika á Íslandi sumarið 1930 en um það leyti söng hún inn á plötu sem upptökumenn frá Columbia tóku upp en þeir voru hér að störfum í tengslum við Alþingishátíðina á Þingvöllum. Þremur árum síðar (1933) var önnur slík törn í gangi og þá voru teknar upp fjórar plötur með henni sem höfðu að geyma átta lög. Fálkinn gaf þær plötur út.

María árið 1924

Á þessum árum var María farin að starfa við tónlistina í Þýskalandi, m.a. í Hamborg þar sem hún var ráðin við Schilleróperuna veturinn 1935-36, þaðan fór hún aftur til Berlínar og nam meiri söng um tíma áður en hún réðist til Dresden til eins árs. Að þeim samningi loknum bauðst henni að syngja þar áfram en kaus að fara aftur til Berlínar vorið 1937. Hún var miklu fremur konsertsöngkona fremur en óperusöngkona og söng einnig bæði á tónleikum og í útvarpi en einnig voru teknar upp nokkrar plötur í Þýskalandi sem komu út 1937 á vegum Fálkans.

Maríu sem þarna var orðin býsna þekkt í Þýskalandi hugnaðist illa sú þróun sem var að verða í stjórnmálunum  þar en nasisminn var þá farinn að setja mark sitt á almennt líf í landinu, hún réðist því til Danmerkur og söng reyndar víðar á Norðurlöndunum og síðan við Glyndebourne óperuhúsið í Englandi um það leyti sem stríð var að bresta á í Evrópu.

Þegar Maríu bauðst að fara í söngferðalag til Ástralíu greip hún tækifærið og þar var hún við tónleikahald í nokkra mánuði við góðar viðtökur. Að þeirri frægðarför lokinni hafði heimsstyrjöldin skollið á og Þjóðverjar hernumið Danmörku svo ekki var því við komið að fara þangað eða Evrópu almennt, hún fór því vestur um haf og dvaldist í Íslendingabyggðum Kanada um hríð þar sem hún hélt fjölda tónleika og tók þar upp eina plötu (1940), en ákvað þá að fara til New York og reyna fyrir sér þar, þar sem Evrópa var hvort eð er lokuð.

María freistaði þess að komast að í Metropolitan óperunni í New York þar sem auglýstar voru fáeinar söngstöður, hún fékk þar ráðningu þrátt fyrir að á áttunda hundrað söngvara sæktu um stöðurnar. Þar með varð hún fyrst Íslendinga til að syngja þar við óperuna sem þótti mikill heiður og vakti mikla athygli heima á Íslandi, þar hafði landið verið dregið inn í stríðið með hernámi Breta og slíkar fréttir glöddu annars dapra þjóð á stríðstímum.

María starfaði í um tvö ár við Metropolitan og söng ýmis óperuhlutverk þar, s.s. aðalkvenhlutverkið í Brúðkaupi Fígarós og hlaut hvarvetna frábæra dóma en hætti síðan nokkuð skyndilega og var ástæðan sögð vera sú að hún hefði þá gengið í hjónaband og ætlaði sér að sinna húsmóðurhlutverkinu en hún átti þá einnig nýfæddan son, Pétur Östlund sem síðar varð þekktur trommuleikari. Mörgum þessi skýring einkennileg og síðar kom upp úr kafinu að hún hafði verið hrakin úr óperunni eftir að þarlent sorptímarit hefði spunnið upp sögur um meint tengsl Maríu við nasismann í Þýskalandi, þannig hefði henni ekki vært í Metropolitan og ákveðið að segja upp starfi sínu. Hið rétta í málinu var að henni hafði verið boðið starf hjá nasistum en hún afþakkað það. Hún bjó þó áfram í New York ásamt eiginmanni og syni, fór eitthvað í framhaldsnám í söngi og mun hafa sungið eitthvað opinberlega án þess að vera nokkurs staðar fastráðin vestra.

Í Ástralíu

Að styrjöld lokinni kom María heim til Íslands haustið 1946 og dvaldi hér í nokkrar vikur en hún hafði þá ekki komið til heimalandsins síðan 1938, við það tækifæri hélt hún fáeina tónleika en fór aftur heim til Bandaríkjanna að því loknu. Lítið heyrðist af Maríu næstu árin en hún kom aftur til Íslands þremur árum síðar og hélt þá einnig tónleika, og mun við það tækifæri einnig hafa sungið tólf lög inn á sex 78 snúninga plötur hjá Ríkisútvarpinu. Ekki liggur fyrir hvort þessar plötur voru gefnar út opinberlega eða hvort um er að ræða hluti af plöturöð sem gefin var út með henni 1955.

Árið 1954 kom María aftur heim til Íslands en síðustu árin höfðu verið nokkuð erfið þeim hjónum, þau höfðu flust til Kanada þar sem eiginmaður hennar stofnaði fyrirtæki sem fór á hausinn og misstu þau allt sitt í kjölfarið, hún dvaldi hér í nokkra mánuði og söng m.a. sem gestur í tveimur sýningum á óperunni Cavalleria rusticana í upphafi árs 1955 í Þjóðleikhúsinu og var það í fyrsta sinn sem hún söng óperuhlutverk hér heima. María fór einnig norður til Akureyrar í þessari Íslandsdvöl, og hélt þar tónleika.

Sumarið 1955 flutti María Markan aftur heim til Íslands með fjölskyldu sína og settust þau að í Keflavík þar sem eiginmaður hennar fékk starf hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. María hafði þarna ekki mikið sungið síðustu árin en kom nokkuð fram framan af, söng t.d. á óperutónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands, í óperuppfærslu á Töfraflautunni auk annarra skemmtana og tónleika. Hún söng þetta sama ár nokkur dægurlög inn á plötur Íslenzkra tóna en þær komu út um haustið. Árið 1959 er hún sögð hafa sungið inn á fjórar plötur hjá Fálkanum en engar upplýsingar er að finna um þá útgáfur, þá segir heimild að Ríkisútvarpið hafi látið gera tíu plötur með henni til dreifingar og sölu erlendis en frekari upplýsingar finnast ekki um það, á hvaða tíma það var eða með hvaða hætti.

María Markan

María hóf að kenna söng og raddþjálfaði kóra suður með sjó og reyndar einnig í Reykjavík. Meðal kunnra söngvara sem numið hafa hjá Maríu má nefna Má Magnússon, Elísabetu Waage (frænku hennar) Sigríði Ellu Magnúsdóttur, Elínu Sigurvinsdóttur, Svölu Nielsen og Hrein Líndal. Þegar eiginmaður Maríu lést í árslok 1961 fluttust mæðginin til Reykjavíkur og þar átti María eftir að búa síðan, hún hélt áfram að kenna söng og stofnaði raddþjálfunar- og óperusöngskóla sem síðar hlaut nafnið Söngskóli Maríu Markan, þann skóla starfrækti hún til ársins 1978 þegar hún hætti að kenna sjötíu og þriggja ára gömul.

Haustið 1965 komu Endurminningar Maríu Markan út, skráðar af Sigríði Thorlacius og vakti sú útgáfa nokkra athygli enda var í henni opinberuð sú rógherferð sem hún hafði orðið fyrir í New York og raunveruleg ástæða þess að hún sagði upp starfi sínu í Metropolitan óperunni. Á þessum tíma var María orðin sextug að aldri og alveg hætt að syngja opinberlega en árið 1969 söng hún þó við útför ekkju Sveinbjörns Sveinbjörnssonar tónskálds.

María sinnti nú kennslunni eingöngu og árið 1973 birtist grein í fjölmiðlum þess efnis að væntanleg væri safnplata með söng hennar en flestar plötur hennar voru þá löngu ófáanlegar enda höfðu þær komið út á 78 snúninga plötum áratugum fyrr, formi sem þá var löngu úr sér gengið og annað tekið við. Platan kom síðan út 1975, árið sem María varð sjötug og hét Sönglög og óperuaríur, gefin út af Fálkanum en aðeins munu hafa verið gerð fimm hundruð eintök af henni. Á plötunni var að finna lög sem áður höfðu komið út auk fjögurra laga sem tekin höfðu verið upp eftir að söngferli hennar lauk. Í tilefni af stórafmælinu voru jafnframt haldnir veglegir afmælistónleikar í Austurbæjarbíói.

Árið 1988 sendi Fálkinn frá sér þreföldu safnplötuna Hljóðritanir 1929-1970 sem hafði að geyma úrval af  upptökum með Maríu, alls voru lögin fimmtíu talsins og var elsta upptakan frá árinu 1929 í Berlín en sú yngsta frá 1970. Mestmegnis var um að ræða endurútgáfur en inni á milli voru lög sem ekki höfðu komið út áður, platan var gefin út í samstarfi við Ríkisútvarpið.

Kápa Endurminninga Maríu Markan

María Markan lést vorið 1995 en hún var þá rétt tæplega níræð að aldri. Fjöldi útgefinna 78 snúninga platna hafði  komið út með henni auk tveggja veglegra safnútgáfa en jafnframt er söng hennar að finna á fjölda safnplatna, meðal þeirra eru hér nefndar Síðasta lag fyrir fréttir, Óskastundin, Söngveisla, Söngvar frá Íslandi I og II og Gullöld íslenskra söngvara. Hún hlaut fjölda viðurkenninga fyrir starf sitt, fékk bæði fálkaorðuna og stórriddarakross, var gerð að heiðursfélaga í Félagi íslenskra tónlistarmanna, Félagi íslenskra einsöngvara, Young Icelandic league of Winnipeg, Imperial order of the daughters of the empire í Winnipeg og Icelandic Canadian club of Winnipeg, þá varð hún fyrst söngvara og fyrst kvenna til að komast í heiðurslaunaflokk listamanna hér heima.

María Markan er með merkustu söngkonum íslenskrar tónlistarsögu, ekki einungis fyrir það að komast að í Metropolitan heldur skóp hún sér töluvert stórt nafn í hinum stóra heimi bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, stærstu ástæður þess að nafn hennar varð ekki stærra er annars vegar mál hennar og meint tengsl hennar við nasista, hins vegar að hennar ferill reis hvað hæst á kreppu- og stríðsárunum og því urðu möguleikar hennar minni en ella.

Efni á plötum