Afmælisbörn 25. september 2019

Matthías Matthíasson

Í dag koma tvö afmælisbörn við sögu hjá Glatkistunni:

Dalvíkingurinn Matthías Matthíasson söngvari er fjörutíu og fjögurra ára, hann vakti fyrst athygli með Reggae on ice en hafði reyndar áður keppt í Músíktilraunum með hljómsveitinni Dagfinni dýralækni. Samhliða reggíævintýrinu lék hann og söng í Hárinu og Súperstar en svo tóku við hljómsveitir eins og Papar, Poppvélin, Dúndurfréttir og fleiri. Matthías hefur einnig verið tíður gestur í undankeppni Eurovision og var reyndar einn af Vinum Sjonna, hann hefur einnig komið við í barnatónlistinni, m.a. í titillaginu að Latabæjarþáttunum. Hann á að baki eina sólóplötu.

Guðmundur Kristinn Jónsson tónlistar- og hljóðupptökumaður frá Keflavík er einnig fjörutíu og fjögurra ára gamall í dag. Hann hefur komið jafnvel enn víðar við en Matthías á sínu hljómsveitabrölti en þeirra á meðal má nefna sveitir eins og Þusl, Fálka, Hjálma, Uniimog, Goose, Sýróp, Baggalút, Senuþjófana og Spik en hann hefur aukinheldur starfað við upptökur á tugum ef ekki hundruðum platna, og leikið á gítar og önnur hljóðfæri einnig á þeim.