Afmælisbörn 27. september 2019

Benedikt Elfar

Tvö afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi:

Akureyringurinn Jón (Arnar) Freysson hljómborðsleikari er fimmtíu og fimm ára gamall í dag. Jón sem er menntaður tölvunarfræðingur varð þekktur þegar hann lék með Bara flokknum á sínum tíma en lék einnig með sveitum eins og Skræpótta fuglinum og Nautsauga en með síðarnefndu sveitinni var hann reyndar gítarleikari. Jón hefur minna verið viðloðandi tónlist síðustu árin.

Benedikt (Árnason) Elfar tenórsöngvari hefði átt afmæli þennan dag. Hann fæddist 1892 á Eyjafjarðarsvæðinu og ólst upp þar en fluttist suður til Reykjavíkur á unglingsárum. Þar nam hann guðfræði og söng en hætti síðar í guðfræðinni til að fara erlendis til frekara söngnáms í Danmörku og síðar Þýskalandi og Noregi. Að námi loknu söng hann víða hér heima á tónleikum (og erlendis) en hann kenndi einnig söng og stýrði kórum, hann rak ennfremur hljóðfæraverslun og varð líklega fyrstur hérlendis til að hafa tónlist í hátalara utan dyra við verslun sína. Benedikt Elfar lést 1960.