Benedikt Elfar (1892-1960)

Benedikt Elfar[3]1

Benedikt Elfar

Nafn Benedikts Elfar tenórsöngvara er e.t.v ekki það þekktasta í dag en hann er einn af frumkvöðlum íslenskrar tónlistarsögu þegar kemur að söng og söngkennslu.

Benedikt (Árnason) Elfar (f. 1892) fæddist við Eyjafjörðinn, lauk gagnfræðiprófi á Akureyri og fluttist síðan til Reykjavíkur til að ljúka stúdentsprófi áður en hann fór í guðfræði við Háskóla Íslands.

Samhliða námi hans í guðfræði nam hann söng hjá Láru Finsen, en svo fór að söngáhuginn tók yfir og Benedikt hætti guðfræðináminu þegar því var í raun lokið. Hann fór því til Danmerkur í söngnám en einnig nam hann í Þýskalandi og Noregi áður en hann sneri heim aftur. Hann þótti mjög efnilegur söngvari og hlaut t.a.m. listamannastyrk árið 1915 sem nam um þrjú hundruð krónum.

Á meðan á söngnámi Benedikts stóð kom hann reglulega til Íslands og hélt hér fjölsótta tónleika við góðan orðstír, einnig fór hann í tónleikaferðir um Norðurlöndin og yfirleitt við góðar undirtektir. Hann kenndi enn fremur söng í þrjú ár víða um Svíþjóð á meðan námi stóð. Þá var hann einn vetur á Akureyri við söngkennslu (1927-28) og stýrði þar m.a. Karlakórnum Geysi sem þá var nýstofnaður.

Þegar Benedikt Elfar var alkominn til Íslands 1929 hóf hann að kenna söng auk þess að halda tónleika en hann þótti einnig liðtækur harmoniumleikari, ekki er þó vitað til að hann hafi kennt á harmonium. Samhliða þessum verkefnum sínum stjórnaði hann tveimur kórum, fyrst Karlakór iðnaðarmanna (1930-31) og síðan Karlakór verkamanna (1932).

Hann rak einnig um tíma hljóðfæraverslun að Laugavegi 19. Árni Elfar tónlistarmaður og teiknari (sonur Benedikts) sagði frá því síðar í blaðaviðtali að hann hefði heyrt að faðir hans hefði sett hátalara út á götu við verslun sína og fólk á förnum vegi hefði fengið að heyra tónlist af grammófónplötum en það hefur þó væntanlega verið í fyrsta skipti sem slíkt tíðkaðist við Laugaveginn.

Ekki náði hann þó að draga fram lífið á tónlistinni einni enda um krepputíma að ræða, hann setti því á fót í kjallara sínum eins konar leikfangasmiðju þar sem hann dundaði sér við að smíða vönduð viðarleikföng en Benedikt var mjög laginn í höndunum og reyndar liðtækur með blýantinn og pensilinn einnig, kallaði hann fyrirtæki sitt Íslenzku leikfangagerðina.

Leikföngin urðu strax gríðarlega vinsæl og svo fór að þau urðu mun smám saman stærri en tónlistin nokkurn tímann hjá Benedikt, í kjölfarið minnkaði hann mjög tónlistariðkan sína og hætti smám saman að kenna og syngja.

Eiginkona Benedikts lést 1943 og nokkru síðar hóf hann aftur söngkennslu en það varð aldrei í líkingu við það sem áður hafði verið.

Benedikt Elfar lést 1960 eftir nokkur veikindi.

Ríkisútvarpið á sjálfsagt í fórum sínum einhverjar upptökur með söng Benedikts Elfar en söngur hans kom aldrei út á plötu, hverju sem um er að kenna. E.t.v. má rekja það til þess að hann lagði aldrei almennilega á þá alþjóðlegu braut sem aðrir söngvarar honum samtíða lögðu á, s.s. Sigurður Skagfield og Einar Markan.