
Mjöll Hólm
Mjöll Hólm er líklega sú söngkona hérlendis sem hefur átt hvað lengstan söngferil en hún hefur sungið opinberlega frá árinu 1959 til dagsins í dag, svo gott sem samfleytt. Mjöll hefur sent frá sér tvær stórar plötur og tvær litlar en frægast laga hennar er án nokkurs vafa stórsmellurinn Jón er kominn heim sem hefur haldið nafni hennar á lofti allt frá því það kom út árið 1971.
Mjöll Hólm Friðbjarnardóttir fæddist sumarið 1944 og var ekki orðin fimmtán ára þegar hún kom í fyrsta skipti fram og söng opinberlega, það var á tónleikum á vegum Svavars Gests í Austurbæjarbíói vorið 1959 þar sem fjöldi ungra söngvara af báðum kynjum fékk að spreyta sig í dægurlagasöng undir leik Hljómsveitar Árna Ísleifssonar. Einu og hálfu ári síðar, í september 1960 tók hún þátt í sams konar dægurlagasöngvarakynningu eins og þetta var oft kallað þar sem hún söng ásamt fleirum við undirleik KK sextetts.
Mjöll hafði á þessum árum verið á kafi í frjálsum íþróttum og keppti þar í ýmsum greinum á unglingsárunum en upp úr 1960 hóf söngurinn að taka yfirhöndina. Hún söng í nokkur skipti með hljómsveitum eins og Falcon kvintett, The Swingers (hljómsveit Sigurðar Johnny) og Tríói Magnúsar Péturssonar, það var mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu s.s. í Silfurtunglinu og Klúbbnum en einnig söng hún fyrir hermenn á Keflavíkurflugvelli.
Fyrsta sveitin sem Mjöll var fastráðin með var Hljómsveit Elfars Berg sem hún byrjaði að syngja með í upphafi árs 1965 í Glaumbæ en með þeirri sveit söng hún allt til ársins 1970, mest í Klúbbnum en einnig á Hótel Borg, á Skiphóli og víðar. Hún söng jafnframt með fleiri sveitum á árunum 1965 til 70, t.d. um tíma með Hljómsveit Karls Lilliendahl en sú sveit mun hafa leikið upp í sex sinnum á viku.

Mjöll Hólm ásamt Hljómsveit Elfars Berg
Síðsumars 1965 var sænska ríkissjónvarpið hér á ferð og tók upp þátt þar sem m.a. Mjöll söng íslensk lög í kuldanæðingi á Þingvöllum, engar upplýsingar er að finna um þennan þátt – hvort Mjöll varð hluti af endanlegri útgáfu hans og hvort eða hvenær þátturinn var sýndur í Svíþjóð. Þetta var hins vegar fyrir tíma íslenska Ríkissjónvarpsins (sem hóf ekki göngu sína fyrr en haustið 1966) og því er harla ólíklegt að þátturinn hafi verið sýndur hérlendis.
Mjöll Hólm söng nokkuð samfleytt á þessum árum, árið 1970 var hún enn að syngja með hljómsveit Elfars Berg sem var af ýmsum stærðum og gerðum en sú sveit starfaði mestmegnis á skemmtistöðunum á höfuðborgarsvæðinu sem reyndar hefur alla tíð verið vettvangur Mjallar, hún var orðin töluvert þekkt söngkona á þessum árum enda hafði sveitin komið fram bæði í útvarpi og sjónvarpi á þessum árum.
Um sumarið 1970 hóf Mjöll að syngja með B.J. kvintettnum og starfaði með þeirri sveit til sumarsins 1971 en virðist þá hafa dregið sig nokkuð í hlé frá söngnum um tíma. Hins vegar sendi hún frá sér sína fyrstu plötu sumarið 1971, tveggja laga plötuna Jón er kominn heim / Ástarþrá á vegum SG-hljómplatna en fyrrnefnda lagið (erlent lag við texta Iðunnar Steinsdóttur) hefur haldið nafni Mjallar á lofti allt til dagsins í dag og hefur löngu síðan hlotið klassískan sess í íslenskri tónlistarsögu. Það hefur komið út á fjölda safnplatna í gegnum tíðina eins og vænta má. Söngur Mjallar var tekinn upp af Pétri Steingrímssyni í Ríkisútvarpinu en hljóðfæraleikurinn mun hafa verið keyptur frá Noregi.
Önnur tveggja laga plata kom út með Mjöll haustið 1972, sú plata var gefin út af Svavari Gests eins og sú fyrri og hafði að geyma lögin Mamy blue og Lífið er stutt. Lögin vöktu ekki eins mikla athygli og slagarinn um Jón og e.t.v. má því kenna um að Mjöll fylgdi plötunni lítið sem ekkert eftir, reyndar söng hún lítillega með Tríói Elfars Berg um það leyti en var að öðru leyti utan sviðsljóssins.

Mjöll Hólm
Mjöll birtist aftur á sviði öldurhúsa höfuðborgarsvæðisins eftir nokkurt hlé snemma vors 1973, þá með hljómsveitinni Stefdísi og síðan Opusi um sumarið. Hún átti eftir að starfa með síðarnefndu sveitinni fram til ársins 1976 en sú sveit sendi sumarið 1974 frá sér tveggja laga plötu þar sem Mjöll söng annað laganna en sú plata fékk fremur neikvæðar viðtökur þótt söngur Mjallar þætti standa upp úr.
Sumarið 1977 var Mjöll gengin til liðs við hljómsveitina Venus og starfaði með þeirri sveit fram á haust en síðan hvarf hún aftur af sjónarsviðinu um tíma eða allt til ársins 1979 þegar hún hóf að syngja með hljómsveitinni Goðgá. Sú sveit starfaði eitthvað með hléum, lék nokkuð á Keflavíkurflugvelli en Mjöll söng með henni fram til 1981 eða 82 en gekk þá í hljómsveitina Á rás 1 og söng með henni um tíma. Vorið 1982 kom Mjöll einnig fram ásamt fleiri söngkonum á tónleikum sem Haukur Morthens hélt í Austurbæjarbíói og um sumarið söng hún aftur með Opus sem þá leysti af Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar á Hótel Sögu.
Mjöll starfaði nú með Opus um tíma en kom einnig fram á söngskemmtunum sem nú nutu mikilla vinsælda en þær gengu út á að rifja upp gullöld rokkáranna með söngvurum þess tíma, þannig söng hún á slíkum rokkhátíðum á Broadway, Þórcafé og víðar og reyndar fóru einhverjar þeirra sýninga út á landsbyggðina einnig.
Sumarið 1983 kom út sólóplata á vegum Ingva Þórs Kormákssonar en hann hafði verið í Goðgá, þar söng Mjöll eitt laganna en hún átti einnig eftir að syngja á annarri plötu hans síðar, Latínudeildinni / Latin faculty (2012).
Mjöll söng með fleiri sveitum síðari hluta níunda áratugarins, til að mynda með hljómsveitum Karls Jónatanssonar, Neistum, Hljómsveit KJ og Stórsveit Karls Jónatanssonar, en einnig með Tríói Elfars Berg sem var endurreist sem og hljómsveitinni Hafrót. Síðast talda sveitin lék einkum á skemmtistöðum sem sérhæfði sig í tónlist fyrir fólk á miðjum aldri og á slíkum stöðum starfaði Mjöll mestmegnis næstu árin, með Hafrót, Danshljómsveitinni okkar, Sín og Par-ís en síðast talda sveitin var dúett hennar með Gunnari Tryggvasyni. Samhliða þessum verkefnum kom hún einnig nokkrum sinnum fram á söngskemmtunum eins og áður eru nefndar, auk sjónvarpsþáttar.

Mjöll Hólm
Um haustið 1995 sendi Mjöll Hólm frá sér tíu laga plötu, þar af með sex frumsömdum og fjórum erlendum en frumsömdu lögin og textarnir voru eftir Agnar Steinarsson son Mjallar og Júlíus Jónasson eiginmann hennar. Platan sem átti reyndar að koma út ári fyrr en tafðist í framleiðslu, hét einfaldlega Mjöll og var gefin út af þeim hjónum. Hún hlaut sæmilega dóma í DV en góða í Morgunblaðinu, að öðru leyti fór ekki hátt um þessa breiðskífu Mjallar.
Mjöll vann um tíma áfram með Gunnari en einnig skemmti hún ásamt Ingvari Þór [?] og fleirum, frá og með árinu 1997 fór hún hins vegar að syngja með Skúla Kr. Gíslasyni á pöbbum bæjarins, Hótel Sögu og fleiri stöðum allt til aldamóta en þá hófst samstarf hennar við Skarphéðinn [Þór Hjartarsson?] sem hún vann með í um fimm ár að minnsta kosti.
Eftir aldamót hefur Mjöll starfað á ýmsum annars konar vettvangi, hún hefur komið fram sem gestasöngvari með fjölda hljómsveita og flytjendum á tónleikum og dansleikjumm, t.d. má nefna hljómsveitirnar Furstana, Hljómsveit Þórleifs Finnssonar, Meðbyr og Sín en þá hefur hún ennfremur komið fram á söngskemmtunum s.s. American graffiti, 50 og 55 ára afmæli rokksins, á styrktartónleikum, tónlistarkvöldum, rokksýninum o.fl., hér má einnig nefna að hún var meðal flytjenda í úrslitum danslagakeppni sem haldin var í tilafni af ári aldraðra 1999. Reyndar hefur hún verið að syngja opinberlega allt til ársins 2019.
Árið 2002 hélt Mjöll tónleika í tilefni af fjörutíu ára söngafmæli sínu en þeir voru haldnir í Kaffileikhúsinu, á þeim tónleikum kom fram einvala lið tónlistarfólks og þar má m.a. nefna söngvarann Ragnar Bjarnason. Þessi tónleikar þar sem Mjöll söng gamla standarda af ýmsu tagi, þóttu heppnast vel og eftir áskoranir voru þeir gefnir út á plötu árið 2007 undir titlinum Tónleikar. Hún hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu.
Þegar þetta er ritað er Mjöll Hólm enn að og hefur, eins og ritað er hér í upphafi, líkast til einn lengstan starfsaldur söngkvenna hér á landi. Hún nýtur virðingar sem ein af fyrstu rokksöngvurum íslenskrar tónlistarsögu og lagið hennar um hann Jón sem er kominn heim heyrist enn reglulega leikið í útvarpi og víðar.