Mósaík [1] (1993-96)

Mósaík

Hljómsveitin Mósaík (Mosaik) vakti nokkra athygli um miðjan tíunda áratug síðustu aldar er hún keppti tvívegis í Músíktilraunum Tónabæjar en meðlimir sveitarinnar voru meðal þeirra yngstu sem þar hafa keppt. Segja má að hluti sveitarinnar hafi síðar orðið að stórum nöfnum í íslensku tónlistarlífi.

Mósaík var stofnuð haustið 1993 af Benedikt Hermanni Hermannssyni (Benna Hemm Hemm) gítarleikara og Halldóri Jónssyni trommuleikara en brátt bættust þrjár stúlkur í hópinn, þær Guðrún Dalía Salómonsdóttir hljómborðsleikari, Svanhildur Snæbjörnsdóttir söngkona og Hanna Ruth Ólafsdóttir sellóleikari. Þannig skipuð var sveitin skráð til leiks í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1994 og komst hún þar í úrslit. Sveitin fékk nokkurt hrós og athygli fyrir tónlist sína og aldur en meðal aldur meðlima hennar var þá rétt innan við fjórtán ár.

Í kjölfarið hóf sveitin leit að bassaleikara og ári síðar (vorið 1995) þegar Mósaík var aftur skráð til leiks í Tónabæjarkeppnina var Andri Guðmundsson bassaleikari genginn til liðs við bandið, aðrir meðlimir voru sem fyrr Benedikt Hermann gítarleikari, Halldór trymbill, Hanna Ruth sellóleikari og Guðrún Dalía hljómborðsleikari en í stað Svanhildar var komin Ólöf Helga Einarsdóttir (Ólöf Arnalds) söngkona og fiðluleikari. Mósaík komst aftur í úrslit keppninnar en skipaði sér ekki meðal þeirra þriggja efstu.

Mósaík 1995

Mósaík var nokkuð áberandi í reykvísku músíklífi eftir keppnina, lék eitthvað á tónleikum og kom fram í sjónvarpsþætti um sumarið. Haustið 1995 átti sveitin síðan lagið Sjáandi á safnplötunni Strump í fótinn og var það eina útgefna lag sveitarinnar.

Haustið 1996 vakti Mósaík nokkra eftirtekt þegar hún spilaði á listahátíðinni Unglist en fljótlega eftir það virðist hún hafa hætt störfum. Einhverjar aðrar mannabreytingar höfðu þá orðið á sveitinni, t.a.m. segir heimild að Hildur Guðnadóttir sellóleikari [?] hafi verið í sveitinni sem og Númi Tómasson trommuleikari – nánari upplýsingar um það má senda Glatkistunni.