Afmælisbörn 28. mars 2020

Jón frá Ljárskógum

Þrjú afmælisbörn (öll látin) koma við tónlistarsögu þessa dags hjá Glatkistunni:

Jón frá Ljárskógum (Jón Jónsson) söngvari og ljóðskáld hefði átt afmæli en hann fæddist á þessum degi árið 1914. Jón er þekktastur fyrir framlag sitt með MA-kvartettnum sem hann söng með um árabil og naut mikilla vinsælda fyrir, kvartettinn gaf út fjöldann allan af plötum sem seldust jafnharðan upp. Hann var einnig ljóða- og söngtextaskáld og þekkja margir ljóð hans við sönglög annarra, má þar nefna Upp til fjalla, Blærinn í laufi og Sestu hérna hjá mér ástin mín. Jón féll frá árið 1945, aðeins 31 árs gamall.

Guðni Agnar Hermansen saxófón- og harmonikkuleikari úr Vestmannaeyjum átti einnig þennan afmælisdag en hann var fæddur 1928. Guðni lék lengst af á heimaslóðum í Eyjunum, þar hóf hann sinn feril með hinu fræga Tunnubandi en síðar lék hann með HG sextettnum, Hljómsveit Guðjóns Pálssonar og eigin sveitum sem hann starfrækti undir nöfnunum GH sextett og Rondó sextett. Guðni sem þótti liðtækur málari og djass-saxófónleikari lést 1989.

Þá átti Björgúlfur Egilsson (1957-2017) jafnframt afmæli á þessum degi. Björgúlfur kom víða við á leiklistar- og tónlistarsviðinu en hann lék á bassa með fjölda hljómsveita, þekktastar þeirra voru Melchior og Kamarorghestar en einnig má nefna sveitir eins og Bísa blús bandið og Bláklukkur sem voru eins konar afsprengi Kamarorghestanna, Útlagar, Jazzhljómsveit Konráðs Bé og Slow-Beatles. Þá lék hann á bassa á plötum með Bubba Morthens og Herði Torfa.