Guðni Már Henningsson (1952-2021)

Guðni Már Henningsson

Flestir þekkja nafn útvarpsmannsins góðkunna Guðna Más Henningssonar en hann kom mun víðar við en í útvarpinu á ferli sínum. Hann gaf t.a.m. út nokkrar ljóðabækur og hélt fjölda málverkasýninga en hann átti einnig tónlistarferil að baki.

Guðni (f. 1952) hóf störf hjá Ríkisútvarpinu árið 1992 og var fastráðinn þar frá 1994, hann annaðist vinsæla þætti eins og Næturvaktina og Poppland en kom einnig að öðrum þáttum og reyndar mörgu öðru hjá RÚV, hann starfaði í tæpan aldarfjórðung hjá Ríkisútvarpinu með hléum.

Guðni starfaði einnig með fáeinum hljómsveitum, lék á slagverk með hljómsveitunum Rasp (sem átti lag á safnspólunni Strump, 1990) og Tass sem hefur einnig sent frá sér efni.

Árið 2009 gáfu þeir Guðni Már og Birgir Henningsson út plötuna Líf, til styrktar Samhjálp en sú plata hafði að geyma lög Birgis við ljóð Guðna Más, Birgir sá um sönginn en hljómsveitin The Viking giant show með Heiðar Örn Kristjánsson í broddi fylkingar annaðist spilamennskuna. Platan var gefin út í minningu mæðra þeirra Guðna Más og Birgis og hefur selst í á fimmta þúsund eintaka.

Þeir Guðni Már og Birgir störfuðu áfram saman, og árið 2012 gaf hljómsveit þeirra, Tass út plötuna Almúgamenn en hún kom út í tilefni af sextugs afmæli Guðna Más. Litlar sögur fara af þessari plötu en hún er tólf laga og forskrifitin sú sama og við gerð fyrstu plötunnar, Birgir sá um lagasmíðarnar og Guðni Már um textana. Það sama má segja um þriðju plötuna sem þeir félagar komu að en hún var í nafni Guðna Más Henningssonar og hinna, og bar titilinn Manstu þá vinda. Sú plata kom út árið 2017 og innihélt fimmtán lög í flutningi ýmissa tónlistarmanna auk þeirra sjálfra og Tass, þeirra á meðal má nefna Rúnar Þór Pétursson, Hvanndalsbræður, Kletta og Ágúst Böðvarsson. Þessi plata var gefin út í minningu Óskars Óskarssonar.

Guðni Már bjó erlendis síðustu árin en hann lést haustið 2021, tæplega sjötugur að aldri.

Efni á plötum