Guðni Agnar Hermansen (1928-89)

Guðni A. Hermansen

Myndlistamaðurinn Guðni A. Hermansen var þekktur fyrir list sína sem að mestu leyti var innblásin af lífinu og landslaginu í Vestmannaeyjum og hann vildi nánast hvergi annars staðar vera, en hann var einnig kunnur tónlistarmaður hér fyrrum og tók þátt í blómlegu djasstónlistarlífi í Eyjum um og eftir miðbik síðustu aldar.

Guðni Agnar Hermansen var fæddur árið 1928 í Vestmannaeyjum, átti íslenska móður og norskan föður. Hann hóf ungur að spila á píanó og harmonikku og síðar einnig á saxófón en hann þótti hafa sérstakan stíl sem blásari. Fyrsta þekkta sveit Guðna var Tunnubandið svokallaða en hún var skipuð unglingum og var nokkuð þekkt í Eyjum, í þeirri sveit lék hann á harmonikku en einnig starfaði hann með Lúðrasveit Vestmannaeyja undir stjórn Oddgeirs Kristjánssonar sem hafði einmitt verið hans fyrsti píanókennari.

Árið 1949 hófst eins konar djassvakning í Vestmannaeyjum sem stóð í ríflega áratug og var djasstónlistarlífið í Eyjum þá sérlega blómlegt, stofnaður var áhugamannaklúbbur og lifandi tónlist í þeim geira þótti sjálfsagður og boðið var reglulega upp á slíkt. Á því skeiði starfaði Guðni með nokkrum sveitum, fyrst skal nefna HG sextettinn sem starfandi undir stjórn Haraldar Guðmundssonar en með þeirri sveit fór Guðni m.a. til Reykjavíkur og var það fyrsta djasshljómsveitin utan af landi sem lék í borginni. Til eru upptökur með sveitinni þar sem hún spilaði í Austurbæjarbíói 1952. Guðni lék á tenór saxófón í þessari sveit og síðan Hljómsveit Guðjóns Pálssonar og enn síðar þegar hann stofnaði eigin sveit árið 1960, GH-sextettinn sem einnig gekk undir nafninu Danshljómsveit Alþýðuhússins þar sem hún var húshljómsveit. Þessi sveit tók síðan upp nafnið Rondó sextettinn og starfaði til ársins 1964 en þá má segja að Guðni hafi lagt tónlistina til hliðar í bili.

Guðni blæs í saxófóninn á vinnustofu sinni

Guðni var menntaður húsamálari og starfaði við það að aðalstarfi framan af, málaði þó einnig málverk á húsveggi þar sem skreytinga þurfti við, sem og leiktjöld fyrir leikfélagið í Eyjum, skreytingar fyrir þjóðhátíðina í Herjólfsdal og málverk sem m1.a. skreyttu veggi Alþýðuhússins og voru eins konar einkennismerki þess. Síðar fór hann í myndlistanám til Reykjavíkur, sneri aftur heim til Eyja og helgaði sig myndlistinni eftir það, hélt fjölda sýninga. Hann var kunnur fyrir list sína sem mestmegnis geymdi mótíf og hugmyndir úr Vestmannaeyjum og nágrenni en þekktasta verk hans er líkast til mynd sem nefnd hefur verið Hefnd Helgafells, hún var máluð árið 1971 og sýnir eldgos í Vestmannaeyjum og var því nokkurs konar forspá fyrir gosið 1973 sem engan óraði fyrir að myndi gerast. Þá hafði Guðni tekið þátt í mótmælum í Eyjum vegna malarnáms úr fjallinu og átti myndin að túlka hefnd þess. Margir muna einnig eftir málverki á plötuumslagi hljómsveitarinnar Loga frá Vestmannaeyjum, …mikið var… (1977) en það málaði Guðni.

Árið 1983 birtist Guðni á nýjan leik sem saxófónleikari, blés þá oftsinnis á djasskvöldum sem haldin voru í Eyjum og það átti hann eftir að gera reglulega næstu árin þar til hann féll frá árið 1989 með nokkrum stuttum aðdraganda rétt rúmlega sextugur að aldri.

Guðna var minnst með ýmsum hætti, minningartónleikar voru haldnir um hann og hafa verið reglulega síðan, einkum til að minnast stórafmælum sem hann hefði átt. Þá hélt hópur utan um myndlistasýningu og djasstónlistarhátíð um hvítasunnuhelgina 1991 sem tileinkuð var minningu Guðna en hún var síðan endurtekin að ári og hefur síðan verið árviss viðburður undir nafninu Dagar lita og tóna, án þess þó að vera beinlínis tengd nafni Guðna. Þess má geta að tónlistarmaðurinn Ólafur Gaukur frumflutti á hátíðinni 1992 tónverkið Hermansen sem hann tileinkaði minningu Guðna.

Haustið 1990 voru uppi hugmyndir um að gefa út plötu með upptökum þar sem Guðni kom við sögu, m.a. frá tónleikum HG sextettsins frá 1952 auk fleiri upptaka. Til stóð að Jazzvakning stæði að útgáfunni en af einhverjum ástæðum kom þessi plata líklega ekki út og bíður því enn útgáfu. Árið 2009 kom svo út í Færeyjum platan Perlur en hún hafði að geyma djasstónlist flutta af Svenn Brimheim og fleirum, og kom Guðni fyrir á þeim upptökum sem munu hafa verið frá tónleikum í kringum 1980.