Góða nótt [2]

Góða nótt
(Lag / texti: erlent lag / Egill Bjarnason)
 
Drengurinn minn, draumur míns hjarta,
dýrlegust gjöf móður ert þú.
Eiga þú munt ævina bjarta,
óskin mín besta’ er til þín sú:

Góða nótt, þú glókollur minn,
glöð og sæl ég strýk þína kinn.
Góða barm ég guði þig fel,
góða nótt, og dreymi þig vel.

Hreykin ég er af þessum snáða,
uppvaxinn mun fallegur sveinn.
Frumburður minn, fæddur til dáða,
fremri þér verður ekki neinn.

Góða nótt, ég sveipa þig sæng,
sofðu rótt sem ungi’ undir væng.
Okkur, sveinn, er gæfan svo góð,
góða nótt, ég syng þér mitt ljóð.

Ætti’ ég ei þig, eflaust ég væri
einmana sál, gleðilaust hér.
Vagga ég þér ,vinurinn kæri,
væran í blund í örmum mér.

Góða nótt, senn gleymi ég mér,
gott mér finnst að sofna hjá þér.
Hér mun guð nú gefa okkur tveim
góða nótt í draumanna heim.

Aldrei hjá þér svefnsins ég sakna,
senn fæ ég blund þína við hlið.
Litlum hjá dreng, ljúft er að vakna,
ljómandi dagur tekur við.

Góða nótt þú, glókollur minn,
glöð og sæl ég strýk þína kinn.
Góða barn, ég guði þig fel,
góða nótt, og dreymi þig vel.

[af plötunni Erla Stefánsdóttir – Erla [ep]]