Friðryk (1980-82)

Friðryk 1980

Hljómsveitin Friðryk starfaði um skeið í upphafi níunda áratugarins, sveitin sem var í rokkaðri kanti þess tíma án þess þó að vera þungarokk var skipuð reynsluboltum af kynslóð poppara áttunda áratugarins sem var bendluð við skallapopp – e.t.v. var sveitin stofnuð til þess að afsanna skallapoppsímyndina því hún reyndi fremur að samsama sig flokki nýrrar kynslóðar sem kennd var við punk, nýbylgju og svokallað gúanórokk, sem leit niður á gömlu popparana.

Friðryk var stofnuð snemma sumars 1980, um það leyti sem Bubbi Morthens var að senda frá sér sína fyrstu sólóplötu og Utangarðsmenn urðu til. Pálmi Gunnarsson söngvari og bassaleikari var þá þekktur tónlistarmaður og hafði á undan m.a. starfað með Brunaliðinu, hann var þá að senda frá sér sína fyrstu sólóplötu, Hvers vegna varst‘ekki kyrr? og hugðist fylgja henni eftir með einhvers konar spilamennsku og hugsanlega var sveitin stofnuð í þeim tilgangi. Hann fékk til liðs við sig þá Sigurð Karlsson trommuleikara, Tryggva J. Hübner gítarleikara og Pétur Hjaltested hljómborðsleikara sem allir höfðu komið við sögu á plötunni en auk þeirra var Lárus H. Grímsson hljómborðsleikari með í hópnum. Kjarni sveitarinnar hafði spilað nokkuð saman áður s.s. með hljómsveitunum Brunaliðinu og Póker (sem hafði m.a. leikið á plötu hinnar ellefu ára gömlu Bjarkar Guðmundsdóttur fáeinum árum fyrr).

Saman fóru þeir félagar af stað um sumarið á fullt í dansleikjaspilamennsku, m.a. í Húnaveri um verslunarmannahelgina og svo með tónleikahaldi um haustið. Reyndar var sveitin alltaf mun duglegri að leika á tónleikum með frumsamið efni, bæði af plötu Pálma og sitt eigið, fremur en að spila á dansleikjum með ábreiður af þekktum slögurum annarra tónlistarmanna, sveitin var þó mun rokkaðri en sólóefni Pálma gaf til kynna.

Sveitin lagðist í híði yfir bláveturinn 1980-81 en birtist svo aftur snemma vors 1981 með fjöldann allan af frumsömdum lögum í farteskinu enda höfðu þeir félagar þá leigt sumarbústað á Snæfellsnesi yfir páskana og samið þar og æft nýtt efni sem ætlað var til upptöku á plötu sem þeir hugðist senda frá sér um sumarið. Lárus H. Grímsson var ekki með sveitinni að þessu sinni en hann var þá í námi í Hollandi. Sveitin hljóðritaði efnið í Hljóðrita um sumarið en fór í raun ekki almennilega af stað fyrr en síðsumars og lék þá m.a. í Atlavík um verslunarmannahelgina, og lagði svo upp í tónleikatúr um haustið. Þá bættist í hópinn gítar- og hljómborðsleikarinn Björgvin Gíslason sem þá hafði verið í Bandaríkjunum um hríð, og þótt hann léki með sveitinni meira og minna það sem eftir var þá var hann aldrei fastur liðsmaður hennar fyrr en líklega alveg í blálokin. Sveitin lagði mikið upp úr frumsömdu efni á tónleikum sínum, af væntanlegri plötu þeirra sem og af sólóplötum Björgvins – Glettum og Pálma – Í leit af lífsgæðum, sem höfðu komið út fyrr árinu.

Friðryk við myndatökur fyrir plötuumslag

Plata Friðryks kom út í lok október 1981 á vegum SG-hljómplatna og bar nafn sveitarinnar. Þótt hún fengi ágætis viðtökur gagnrýnenda dagblaðanna, Dagblaðsins, Þjóðviljans og DV (sem varð til um þetta leyti við samruna Dagblaðsins og Vísis), og þokkalega í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar, fór fremur lítið fyrir plötunni því svo virðist sem dreifingu og auglýsingu hennar hafi verið áfátt, því vakti hún fremur litla athygli, þrátt fyrir fremur jákvæða dóma þótti hljómurinn á henni afleitur. Flest laganna voru eftir meðlimi sveitarinnar en Kristján Hreinsson (Kristján Hreinsmögur) lagði til plötunnar nokkra texta en hann hafði einnig fundið upp á nafni sveitarinnar (og gefið út ljóðabók með sama titil). Lagið Í kirkju náði nokkurri spilun í Ríkisútvarpinu en það lag varð síðar eins konar einkennislag sveitarinnar þegar henni var boðið að koma fram í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík sem frumsýnd var um vorið 1982, þar var sveitin ásamt Þursaflokknum og Start svolítið á skjön við sér mun yngri hljómsveitir pönkara, nýbylgjutónlistarmanna og jafnvel nýrómantískra poppara sem þar voru að kveða sér hljóðs. Þannig gerði Rokk í Reykjavík líklega mun meira fyrir sveitina heldur en útgáfa plötunnar.

Á sama tíma og áhorfendur Rokks í Reykjavík litu Friðryk augum í hlutverki rokkara vorið 1982 tók sveitin þátt í allt annars konar verkefni sem innihélt ekki eins mikið rokk en þá var settur á svið í Háskólabíói í nokkur skipti eins konar metnaðarfullur ballettsöngleikur eftir Báru Magnúsdóttur (í Jazzballettskóla Báru – JSB) og áðurnefndan Kristján Hreinsson, sem bar nafnið Jazz-inn. Friðryk mun hafa samið tónlistina í samráði við Árna Scheving tónlistarstjóra sýningarinnar en einnig komu þeir Guðmundur Ingólfsson, Helgi Kristjánsson og Þorleifur Gíslason að flutningnum. Pálmi söng eitt aðalhlutverka söngleikjarins sem fékk ágætar viðtökur en sýningar urðu örfáar. Til stóð að hljóðrita tónlistina til útgáfu en af einhverjum ástæðum kom aldrei til þess.

Friðryk hafði í febrúar komið fram á afmælishátíð Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) sem hélt þá upp á hálfrar aldar afmæli sitt, áðurnefnt lag Í kirkju var þá hljóðritað og kom út á tvöfaldri plötu sem kom út af því tilefni og eru því til þrjár útgefnar útgáfur af laginu – á plötu FÍH, Rokk í Reykjavík og Friðryks-plötunni. Lagið hefur einnig oftsinnis komið út á safnplötum, m.a. á Pottþétt rokk 2 (2000), Icelandic rock classics (2015) og Þorparinn: 57 vinsæl lög frá ferli Pálma Gunnarssonar (2013).

Friðryk

Sveitin hafði leikið eitthvað áfram fram eftir vori en þá tilkynnti Pálmi söngvari og bassaleikari að hann væri hættur í henni, ekki voru gefnar út neinar skýringar á brotthvarfi hans en við þessi umskipti færði Tryggvi sig yfir á bassann og Björgvin varð gítarleikari sveitarinnar. Sigurður trommuleikari mun í framhaldið hafa að mestu séð um sönginn í Friðryk ásamt Pétri hljómborðsleikara en sveitin starfaði áfram um sumarið og hætti svo störfum við sumarlok 1982.

Þeir Friðryks-félagar voru þó ekki alveg hættir að starfa saman því þeir léku á plötu Ingunnar Gylfadóttur, söngkonu á unglingsaldri frá Seyðisfirði, sem kom út vorið 1983. Það var þó ekki undir Friðryks-nafninu.

Í bæklingi safnplötunnar Séð og heyrt; bestu lög Pálma Gunnarssonar, sem kom út árið 1999 má sjá eftirfarandi sögu Pálma af Friðryks-tímabilinu: “Það er fullt útúr dyrum. Unglingurinn (gælunafn sem við félagarnir í Friðryk gáfum Tryggva Hübner) stendur á sviðinu og minnir á veru frá öðrum hnetti. Röndóttir uppháir sokkarnir setja einhvern trúðslegan svip á gítarleikarann. Við gerum okkur grein fyrir því að eitthvað alvarlegt er í uppsiglinu; eitthvað annað og meira en venjulegt gítarsóló í Kirkjulaginu. Einn af öðrum hættum við að leika með og sláumst í hóp áheyrenda. Sviðið er unglingsins. Aldrei á ævi minni hef ég orðið vitni að slíkum hamförum. Hér eru engir gítarar brotnir heldur gætt við hljóðmúrinn. Löngu seinna tekst okkur að ljúka laginu og áheyrendur sitja eins og lamaðir í óþægilegri þögninni. Ég gæfi sálu mína fyrir að eiga “æði aldarinnar” á segulbandi en verð að láta mér nægja minninguna.”

Efni á plötum