Samkór Rangæinga [2] (1996-2015)

Samkór Rangæinga

Samkór Rangæinga (hinn síðari) starfaði í Rangárþingi í um tvo áratugi undir lok tuttugustu aldar og fram á þá tuttugustu og fyrstu, hann varð til upp úr Samkór Oddakirkju.

Haustið 1995 hafði Samkór Oddakirkju verið stofnaður upp úr Kirkjukór Oddakirkju, hann var skipaður söngfólki víða úr Rangárvallasýslu sem hafði bæst í hóp kirkjukórsins en stjórnandi kórsins og forvígismaður var Guðjón Halldór Óskarsson organisti kirkjunnar. Um ári eftir að kórinn tók til starfa tók hann upp nafnið Samkór Rangæinga enda þótti það nafn mun betur við hæfi en að kenna sig við Oddakirkju, því telst Samkór Rangæinga strangt til tekið vera stofnaður 1996. Þess má geta að kór hafði verið starfandi í sýslunni undir sama nafni á árunum 1974-81.

Samkór Rangæinga var töluvert áberandi við tónleikahald fyrstu árin, sérstaklega á vorin og reyndar fór kórinn í nokkur skipti erlendis til tónleikahalds. Undir stjórn Guðjóns Halldórs starfaði kórinn til 2007 en þá um haustið tók Kristín Sigfúsdóttir við kórstjórninni, undir hennar stjórn virðist kórinn hafa starfað til 2015 en var reyndar ekki mjög virkur allra síðustu árin.

Tvær plötur komu út undir merkjum Samkórs Rangæinga, árið 1996 kom út fjórtán laga plata undir nafninu Inni í faðmi fjalla þinna en hann hafði að geyma íslensk kórlög úr ýmsum áttum, fjórum árum síðar (2000) kom svo út jólaplatan Nóttin var sú ágæt ein en hún innihélt átján jólalög, sú plata var fyrsta jólaplatan sem gefin var út í Rangárvallasýslu.. Báðar plöturnar fengu góða dóma í Morgunblaðinu.

Þá má þess geta að kórinn kom við sögu á plötunni Heyrði ég í hamrinum (1997), sem hafði að geyma tónlist Ingibjargar Sigurðardóttur frá Bjálmholti, og einnig söng kórinn nokkur lög á plötunum Aðventutónleikar að Heimalandi 1. des. 2001 (fimm lög) og Aðventutónleikar Laugalandi 2006 (þrjú lög) en á þeim plötum sungu ýmsir kórar úr sýslunni.

Efni á plötum