Afmælisbörn 8. júní 2021

Ingimundur Ellert Þorkelsson

Fjögur tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar í dag:

Sindri (Þórsson) Eldon er þrjátíu og fimm ára á þessum degi. Sindri hefur gefið út sólóplötuna Bitter and resentful en hann hefur verið viðloðandi tónlist með einum eða öðrum hætti nánast frá fæðingu, mest í hljómsveitum en þeirra á meðal má nefna Dáðadrengi, Slugs, Desidiu, Dynamo fog og The Ways sem hann vann sólóplötuna með.

Ingimundur Ellert Þorkelsson bassaleikari er fimmtíu og tveggja ára gamall á þessum degi. Ingimundur Ellert (Elli) hefur eftir því sem best verður komist aðeins leikið með tveimur hljómsveitum en báðar eru þær í þekktari kantinum og hafa gefið út plötur, það eru sveitirnar Dos Pilas og Bootlegs en sú síðarnefnda er reyndar ennþá starfandi.

Ingimar Bjarnason er fimmtugur í dag og á því stórafmæli. Ingimar var töluvert áberandi í neðanjarðarsenunni á tíunda áratugnum og starfaði þá með fjölda hljómsveita í þeim geira, bæði í pönki og nýbylgju. Hann lék á ýmis hljóðfæri með hljómsveitum eins og Örkumli, Ástríki í helvíti, Kusu, Lalla og ljósastauragenginu, Frumskógareddu, Veryneat, Hanoi Jane, Prófessor Finger og Út úr blánum. Ingimar hefur búið erlendis undanfarin ár.

Djassleikarinn Árni (Friðrik Einarsson) Scheving hefði einnig átt þennan afmælisdag en hann lést árið 2007. Árni (fæddur 1938) spilaði með ógrynni hljómsveita á sínum ferli og til að nefna einhverjar eru t.d. Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar, KK sextett, NEO tríóið, Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar, Sumargleðin, Útlendingarhersveitin og Astral sextett. Einnig rak Árni eigin sveitir en starfaði lengst af í lausamennsku og er nafn hans því að finna á mörgum plötuumslögum. Árni var óhemju fjölhæfur listamaður og lék á harmonikku, bassa, óbó, víbrafón og margt fleira.

Vissir þú að Shady Owens söng bakraddir með hljómsveitinni The Police á löngum tónleikatúr um Bandaríkin 1983?