Söfnun á Karolina Fund vegna bókar um Jóhann Jóhannsson

Jóhann Jóhannsson

Undanfarið hefur verið unnið að heimildamynd um Jóhann Jóhannsson tónlistarmanns sem lést langt fyrir aldur fram í febrúar 2018. Það eru þeir Davíð Hörgdal Stefánsson og Orri Jónsson (auk Eyju Orradóttur) sem hafa haft veg og vanda að verkinu og samhliða því og rannsóknarvinnu um tveggja ára skeið hafa þeir félagar unnið að bók um Jóhann sem nú er langt komin í vinnslu en framundan er lokahnykkur þessa umfangsmikla verkefnis.

Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur fjármagnað framleiðslu heimildamyndarinnar að hluta til en til að unnt reynist að ljúka bókverkinu hefur verið sett á fót söfnun á Karolina Fund til að mæta kostnaði við þá rannsóknarvinnu og úrvinnslu hennar sem hefur reynst bróðurpartur vinnunnar.

Hugmyndir þeirra félaga eru metnaðarfullar og útkoman verður glæsileg, lífleg og óvenjuleg bók full af skemmtilegu og fræðandi efni um Jóhann og þá íslensku tónlistarsenu sem hann spratt úr á níunda og tíunda áratug liðinnar aldar. Fjármögnunin á Karolina Fund leggur áherslu á forsölu á 1. útgáfu bókarinnar – og rannsóknarvinnuna fyrir hana en mun einnig gagnast við vinnslu heimildamyndarinnar og tryggja að ævi og listferli Jóhanns verði gerð almennileg skil.

Hér er tengill á Karolina Fund söfnun þeirra félaga og eru allir hvattir til að leggja þessu verkefni lið.