Scandall (2001-05)

Hljómsveit sem bar nafnið Scandall (Skandall) starfaði með hléum á árunum 2001 til 2005, og skartaði hún meðlimum úr þekktum sveitaballahljómsveitum sem þá voru í fríi, sveitin spilaði mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu en lék þó eitthvað lítillega á landsbyggðinni.

Scandall var stofnuð í upphafi árs 2001 eða í lok ársins á undan og voru meðlimir hennar Stefán Örn Gunnlaugsson hljómborðsleikari og söngvari, Ingvar Valgeirsson gítarleikari og söngvari, Jón Kjartan Ingólfsson bassaleikari og Jóhann Bachmann trommuleikari. Jón Ólafur Sigurjónsson tók fljótlega við af nafna sínum Jóni Kjartani og einnig virðist Matthías Matthíasson hafa verið í sveitinni á einhverjum tímapunkti.

Scandall starfaði fram á haust 2001, birtist svo aftur vorið eftir í skamman tíma, enn aftur 2003 og svo lítillega 2005 en þá virðist sögu sveitarinnar endanlega lokið.