Sextett Jóns Sigurðssonar (1967-70)

Sextett Jóns Sigurðssonar starfaði um tæplega þriggja ára skeið undir lok sjöunda áratugar síðustu aldar og var þá nokkuð á skjön við vinsælustu hljómsveitir landsins sem flestar léku bítla- og hippatónlist á þeim tíma, sextettinn þjónaði hins vegar eldri markhópi og naut töluverðra vinsælda. Sveitin var húshljómsveit í Þórscafé, hafði þar tekið við af Lúdó sextett og var að einhverju leyti skipuð sömu meðlimum.

Sextett Jóns Sigurðssonar (stöku sinnum nefnd Hljómsveit Jóns Sigurðssonar) var stofnuð á haustdögum 1967 og var sem fyrr segir hljómsveit hússins í Þórscafé, sveitin lék þó miklu víðar s.s. í Breiðfirðingabúð, Klúbbnum, á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska hernum og víðar og lék reyndar flest kvöld vikunnar, sveitin kom einnig fram bæði í útvarpi og sjónvarpi meðan hún starfaði.

Meðlimir sveitarinnar í upphafi voru þeir Stefán Jónsson söngvari, Ormar Þorgrímsson bassaleikari, Viðar Loftsson trommuleikari, Hilmar A. Hilmarsson gítarleikari, Rúnar Georgsson saxófón- og flautuleikari og svo hljómsveitarstjórinn sjálfur Jón Sigurðsson (Jón bassi) sem að þessu sinni gæti hafa leikið á píanó.  Sextettinn starfaði fram á vorið 1970 og einhverjar mannabreytingar urðu á sveitinni á þeim tíma, til að mynda kom sonur Jón, Sigurður Rúnar Jónsson inn í sveitina á einhverjum tímapunkti og lék með henni þar til yfir lauk, ekki liggur fyrir á hvaða hljóðfæri hann lék en hér er giskað á orgel, Kristinn Sigmarsson gítarleikari lék einnig með sveitinni í skamman tíma sumarið 1968 og Karl J. Sighvatsson mun hafa komið fram með henni að minnsta kosti einu sinni án þess þó að ganga til liðs við hana, ekki liggja fyrir upplýsingar um aðrar breytingar á hljóðfæraskipan hennar. Drífa Kristjánsdóttir söng með sextettnum ásamt Stefáni síðari hluta starfstíma sveitarinnar.

Vorið 1968 fór sveitin í hljóðver og tók upp fjögurra laga plötu undir stjórn Péturs Steingrímssonar, afraksturinn kom út um sumarið á vegum Tónaútgáfunnar og varð fyrsta stereo platan hérlendis. Lögin voru að mestu tengd Skagafirðinum, tvö þeirra komu úr Dægurlagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks (tengt Sæluviku Skagfirðinga), annars vegar lagið Góðir vinir sem var eftir hina tíu ára gömlu Lailu Angantýsdóttur og hins vegar Sjómannavísa eftir Jón Þorkelsson – sá hafði blístrað lagið fyrir Hauk Þorsteinsson sem hélt utan um dægurlagakeppnina og lagið var síðan útsett fyrir keppnina og endaði á þessari plötu. Hin lögin tvö voru erlend við texta Birgis Marinóssonar.

Sextett Jóns Sigurðsson hætti störfum sem fyrr segir vorið 1970.

Efni á plötum